Námskráráherslur
Skipulag náms og kennslu
Námsmat og vitnisburður
Stuðningsefni og upplýsingar
Forsiða
VitnisburðurSkólum er skylt að skrá vitnisburð nemenda við lok grunnskóla þar sem staða þeirra gagnvart matsviðmiðum 10. bekkjar er dregin saman og birt með bókstafseinkunn. Algengt er að skólar vinni sambærilegan vitnisburð oftar á grunnskólagöngunni, til dæmis við lok hvers skólaárs. Þegar vitnisburður er gefinn er mikilvægt að byggja hann á matsviðmiðum aðalnámskrár fyrir greinasviðin eða útfærslum skólans á þeim.
Þegar vitnisburður er unninn skiptir miklu máli að kennarar geti rökstutt niðurstöður sem birtar eru með tilvísun í matsviðmið aðalnámskrár, að fjölbreytt og áreiðanleg matsgögn búi að baki því lokamati sem lagt hefur verið til grundvallar á undanförnum námstímabilum og að nemendur og forsjáraðilar hafi verið upplýstir reglulega um námslega stöðu nemenda. Markmið skólans er að gefa eins nákvæmar og samræmdar lokaeinkunnir og hægt er.
Fagmennska kennara er mikilvæg þegar vitnisburður er unninn. Kennarinn þekkir nemendur sína vel og sömuleiðis þau hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið sem liggja til grundvallar í starfinu. Í krafti þessarar þekkingar vinnur kennari vitnisburð með því að horfa heildrænt á stöðu nemenda og bera saman við matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla. Vitnisburður þarf að byggja á námsmati sem framkvæmt er með fjölbreyttum matsgögnum og matsviðmiðum sem eru í samræmi við þau hæfniviðmið og námsmarkmið sem lágu til grundvallar á þeim námstímabilum sem vitnisburðurinn nær yfir. Við lok grunnskóla, er æskilegt að nemendur hafi sýnt hæfni sína gagnvart tilteknum þætti hvers matsviðmiðs á mismunandi hátt í ólíkum aðstæðum þannig að kennarinn hafi góðar forsendur til að meta hæfni þeirra og geti rökstutt niðurstöðuna.
Sýna þarf fyrirhyggju í skipulagi lokamats alla skólagöngu nemenda svo mögulegt sé að draga saman, á málefnalegan hátt, upplýsingar til birtingar í vitnisburði við lok árgangs, aldursstigs eða við útskrift úr grunnskóla. Matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla eru umfangsmikil og þegar gefa á lokaeinkunn fyrir heilt greinasvið á borð við samfélagsgreinar þarf að draga saman niðurstöður úr mörgum námsþáttum sem nemendur hafa unnið. Þá skiptir máli að skipulag náms, kennslu og námsmats hafi verið skýrt og að kennari viti hvaða þræði hann hefur lagt í vef frá forgangsröðuðum hæfniviðmiðum og settum námsmarkmiðum að matsviðmiðum aðalnámskrárinnar.
Matsfræðingurinn Thomas Guskey (2015) leggur áherslu á að þegar kennarar birta upplýsingar um stöðu nemenda í vitnisburði sé mikilvægt að þeir hafi gefið fleiri en eina einkunn til að lýsa stöðunni t.d. í samfélagsgreinum. Lokamat sem unnið hefur verið á undangengnum námstímabilum þarf því að setja fram í nokkrum undirþáttum námsgreinarinnar, til dæmis eftir þeim flokkum (undirköflum) sem hverju greinasviði í Aðalnámskrá grunnskóla er skipt í. Þegar lokaeinkunn í námsgrein byggir á sundurliðun greinarinnar í flokka fá bæði nemendur og foreldrar skýrari og heildstæðari mynd af námslegri stöðu nemenda.
Hægt er að vinna vitnisburð á ýmsa vegu og fyrir utan kröfuna um samræmdan vitnisburð við lok 10. bekkjar er skólum frjálst að skilgreina eigin áherslur og leiðir í námsmatsstefnu sinni. Vitnisburð er hægt að byggja á lokaverkefnum þar sem nemendur vinna umfangsmikil verkefni þar sem þeir geta sýnt fjölbreytta hæfni sem meta á samkvæmt matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. Vitnisburð má líka byggja á greiningu á því lokamati sem fram hefur farið yfir ákveðinn fjölda námstímabila. Lokaeinkunnir eru þá dregnar saman í samræmi við matsviðmið aðalnámskrár og það vægi sem skóli leggur á ólíka flokka greinasviða. Þegar þessi leið er valin er mikilvægt að kennarar hugi vel að því hvernig hægt er að endurspegla sem best þá hæfni sem nemandinn býr yfir á þeim tímapunkti sem vitnisburðurinn er gefinn og að ekki sé unnið út frá upplýsingum sem eru orðnar gamlar og jafnvel úreltar. Skýrt skipulag á endurmati er sérstaklega mikilvægt í þessu samhengi. Óháð þeirri leið sem skóli fer í vinnslu vitnisburðar er mikilvægt að nemendur séu meðvitaðir um ferlið og eigi tök á því að ræða stöðuna við kennara, bregðast við og fá tækifæri til að endurmats þegar tilefni er til.
Miklu máli skiptir að allir, kennarar, nemendur og forsjáraðilar, skilji vitnisburð skólans með sama hætti og hafi sameiginlegan skilning á hvaða forsendur liggi að baki mati á hæfni nemenda. Matsviðmið, matskvarða og matstákn þarf að kynna vel fyrir nemendum og ræða í samhengi við daglegt nám og sett námsmarkmið. Æskilegt er að nýta matsviðmið aðalnámskrár að einhverju leyti í leiðsögn til nemenda þannig að þeir læri smám saman á þau, hafi fengið tækifæri til að ná góðum árangri og skilji hvað liggur til grundvallar þegar kennarar ganga frá lokamati og vitnisburði.
Í skólanámskrá þarf að gera skýra grein fyrir því hvenær vitnisburður er birtur nemendum og forsjáraðilum. Er vitnisburður birtur tvisvar á ári, í lok skólaárs eða í lok aldursstigs? Gera þarf grein fyrir þeim matsviðmiðum, matstáknum og matskvarða sem notaður er við vinnslu vitnisburðar. Að lokum þarf að vera skýrt hvar og hvernig vitnisburður er birtur, hvort hann sé afhentur við ákveðin tækifæri eða birtur á stafrænum miðlum.
Þegar vitnisburður er settur fram með matstáknum (einkunnum) er mikilvægt að fyrir liggi skýr matskvarði sem skilgreinir og lýsir þeim viðmiðum um námslegan árangur sem matstákn vísa til. Í skólanámskrá þarf að gera grein fyrir ákvörðunum skólans um notkun matskvarða og matstákna, hvort og hvernig þau eru notuð í lokamati og vitnisburði nemenda.
Með hliðsjón af skýrum matskvarða er hægt að draga saman lýsingu á hæfni nemenda á hverju greinasviði. Forsenda fyrir því að vitnisburður gefi fullnægjandi upplýsingar er að skipulag náms, kennslu og námsmats miðist allt við að nemendur fái fjölbreytt tækifæri til að öðlast þá hæfni sem vitnisburðurinn á að gera grein fyrir. Einnig er nauðsynlegt að notkun matskvarða og matstákna sé útskýrð mjög vel fyrir nemendum og forsjáraðilum svo að allir geti skilið vitnisburðinn á sama hátt.
Í töflu hér á eftir eru sýnd dæmi um hvernig matsviðmið eru felld inn í fjögra þrepa kvarða og hversu fjölbreytt matstákn hægt er að nýta. Slík matstákn er hægt að nota við lokamat og vinnslu vitnisburðar á öllum greinasviðum. Mikilvægt er að hver skóli setji sér skýra stefnu og samræmi notkun matstákna innan skólans til að ýta undir sameiginlegan skilning allra aðila á þeim.
| Þrep matskvarða | 1 | 2 | 3 | 4 |
|---|---|---|---|---|
| Einkunnarorð | Þarfnast þjálfunar | Á góðri leið | Hæfni náð | Framúrskarandi hæfni |
| Almenn lýsing á merkingu matsþrepsins | Nemandi sýnir hæfni að litlu leyti. Þarf frekari þjálfun við ákveðna þætti. | Nemandi sýnir sæmilega hæfni. Þarf stuðning við ákveðna þætti. | Nemandi sýnir góða hæfni samkvæmt þeim viðmiðum sem liggja til grundvallar og fá frávik eru á frammistöðu. | Nemandi sýnir framúrskarandi hæfni og frammistaða er mjög stöðug. |
| Brot úr matsviðmiðum aðalnámskrár fyrir samfélagsgreinar í 7. bekk | Nemandi tjáir hugmyndir sínar um samfélagsleg málefni á óskýran hátt og tekur ekki afstöðu til málefna. | Nemandi getur að einhverju leyti fjallað um samfélagsleg málefni og myndað sér skoðanir. | Nemandi getur fjallað um samfélagsleg málefni frá ólíkum sjónarhornum og myndað sér skoðanir. | Nemandi getur á fjölbreyttan og skipulegan hátt fjallað um samfélagsleg málefni frá ólíkum sjónarhornum, myndað sér skoðanir og fært rök fyrir þeim. |
| Námsmarkmið í samfélagsgreinum notað sem matsviðmið og sett á fjögurra þrepa kvarða | Nemandi getur ekki útskýrt hugtökin réttindi og forréttindi á fullnægjandi hátt og þarf frekari kennslu. | Nemandi getur skilgreint hugtökin réttindi og forréttindi eins og gert er í námsefni og útskýrt muninn á þeim að nokkru leyti. | Nemandi sýnir góðan skilning á hugtökunum réttindi og forréttindi og getur útskýrt muninn á þeim með eigin orðum. | Nemandi sýnir framúrskarandi skilning á hugtökunum réttindi og forréttindi og getur útskýrt muninn á þeim í máli, myndum og með viðeigandi líkingum. |

Minnt er á mikilvægi þess að nota ekki matstákn í daglegu starfi og leiðsagnarmati heldur byggja samtalið við nemendur um stöðu þeirra í náminu á námsmarkmiðum.
Við útskrift nemenda úr grunnskóla er skólum skylt að nota sex þrepa matskvarða sem er skilgreindur í námskránni. Í þeim kvarða eru notaðar bókstafseinkunnirnar D, C, C+, B, B+ og A. Ekki eru þó skilgreind matsviðmið fyrir einkunnirnar D, C+ eða B+. Einkunnirnar C+ og B+ lýsa hæfni nemenda sem náð hafa að hluta til viðmiðum sem lýst er á næsta þrepi kvarðans en ekki að fullu leyti. Einkunnin B+ er notuð þegar hæfni nemenda er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B, þ.e. nemandi hefur náð öllum matsviðmiðum einkunnarinnar B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A. Sama á við um einkunnina C+. Þar hefur nemandi náð að hluta til þeim viðmiðum sem einkunnin B kveður á um en öllum viðmiðum einkunnarinnar C.
| D | C | C+ | B | B+ | A |
|---|---|---|---|---|---|
| Nemandi uppfyllir ekki matsviðmið C. Hann hefur alla burði til að læra en hefur ekki sinnt námsþættinum nægilega til að geta sýnt fram á hæfni. | Nemandi uppfyllir meirihluta matsviðmiða C og öll viðmiðin sem skólinn leggur mesta áherslu á. | Nemandi uppfyllir matsviðmið fyrir C og meirihluta eða mikilvæg viðmið fyrir B. | Nemandi uppfyllir að mestu leyti matsviðmið B og öll viðmiðin sem skólinn leggur mesta áherslu á. | Nemandi uppfyllir matsviðmið fyrir B og meirihluta eða mikilvæg viðmið fyrir A. | Nemandi uppfyllir að mestu leyti matsviðmið A og öll viðmiðin sem skólinn leggur mesta áherslu á. |
Eitt einkenni matskvarða sem byggður er á matsviðmiðum, líkt og matskvarði í Aðalnámskrá grunnskóla, er að hátt hlutfall nemenda fær ákveðna einkunn. Sá flokkur endurspeglar grunn eða grundvöll fyrir hæfni og færni á viðkomandi greinasviði fyrir tiltekinn aldur. Þessi einkunn sýnir þá að nemandi hafi náð góðum grunni sem er talinn nauðsynlegur fyrir virka þátttöku einstaklinga í samfélaginu og grundvöllur til frekara náms. Í matskvarða Aðalnámskrár grunnskóla er B þessi einkunn.
Lokaverkefni eru umfangsmikil rannsóknarverkefni, oft skilgreind sem áhugasviðsverkefni, þar sem nemendur geta valið sér rannsóknarspurningu, aðferðir sem þeir beita og hvernig þeir miðla niðurstöðum til að sýna fram á fjölbreytta hæfni gagnvart matsviðmiðum sem liggja til grundvallar vitnisburði.
Þegar lokaverkefni er lagt til grundvallar vitnisburði nemenda er mikilvægt að matsviðmiðin sem nota á við námsmatið, námsmarkmið og hæfniviðmið sem þau byggja á, séu kynnt vel í upphafi vinnunnar og séu sýnileg í öllu námsferlinu. Mikilvægt er að nemendur fái nægan tíma og ríkulega leiðsögn svo að þeir geti sýnt sína bestu frammistöðu í vinnuferlinu og kynningu á lokaverkefninu.
Lokaverkefni er hægt að leggja fyrir þegar markviss kennsla hefur farið fram yfir lengri tíma og kennarar treysta því að nemendur búi yfir þeirri hæfni sem ætlunin er að meta, eða geti náð henni með glímunni við lokaverkefnið. Lokaverkefnin geta verið afmörkuð við ákveðin greinasvið eða skipulögð með fleiri greinasvið í huga. Samþætting greinasviða gefur fjölbreytta möguleika á að nýta tíma og vinnu nemenda til að sýna fram á hæfni sem er sameiginleg með ólíkum greinasviðum svo sem orðaforða, læsi, tjáningu, miðlun og gagnrýna hugsun. Hins vegar getur verið krefjandi fyrir nemendur að uppfylla matsviðmið margra greinasviða í einu og sama verkefninu. Þess vegna er mikilvægt að nemendur viti hvert markmiðið sé með verkefnunum og hvort þeir þurfi að vinna önnur verkefni til viðbótar til að ljúka þeim skilum sem metin verða til að ganga frá vitnisburði.
Þegar lokamat felst í stórum verkefnum þar sem nemendur þurfa að sýna fjölbreytta hæfni er mjög mikilvægt að búið sé að þjálfa þá í sjálfstæðri rannsóknarvinnu og fjölbreyttri miðlun. Æskilegt er að verkefnunum sé skilað á einhvers konar uppskeruhátíðum, málþingum eða öðrum vettvangi þar sem svigrúm er til fjölbreyttra skila á textum, myndefni og kynningum og nemendur geta útskýrt verkefni sín og svarað fyrirspurnum um þau. Ef þessi vettvangur er ekki til staðar við skilin verða möguleikar nemenda á miðlun hugmynda sinna mun takmarkaðri og þá takmarkast líka tækifæri þeirra til að sýna fram á fjölbreytta hæfni.
Lokamat á lokaverkefnum felst í að kennari ber verkefni nemenda saman við matsviðmið og gengur frá lokaeinkunn á grunni þeirra. Ef lokaverkefni gilda til vitnisburðar við lok grunnskóla er mjög mikilvægt að matsviðmið aðalnámskrár liggi til grundvallar námsmatinu og að skýrt sé hvort allir flokkar matsviðmiðanna hafi sama vægi eða ekki. Ef ólíkir flokkar matsviðmiða hafa mismikið vægi verða nemendur að vita það frá upphafi vinnuferlisins.
Hefð hefur skapast fyrir lokaverkefnum á minni og stærri skala í mörgum skólum á Íslandi og rata þessi verkefni nemenda oft í fréttir á vorin. Algengt er að nemendur vinni lokaverkefni til að sýna fram á lykilhæfni sína og í sumum skólum eru þau notuð til lokamats á fleiri greinasviðum. Með einfaldri leit á netinu má finna dæmi eins og þau sem við bendum á hér:
Erfitt er fyrir nemendur að sýna fram á alla þá hæfni sem tilgreind er í matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla á afmörkuðum tímapunkti. Jafn erfitt er fyrir kennara að leggja fyrir lokamat sem nær til allra þátta matsviðmiðanna. Vitnisburð er því hægt að byggja á greiningu á lokamati sem fram hefur farið yfir ákveðinn fjölda námstímabila og skráð í hæfnikort nemenda.
Hæfnikort er yfirlitsmynd sem safnar saman og gefur yfirlit um stöðu nemenda gagnvart matsviðmiðum. Mælt er með að hæfnikort séu sett upp á þann hátt að þau sýni skýrt þá flokka (undirkafla) greinasviða sem matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla fjalla um.
Þegar kennarar skrá upplýsingar á markvissan hátt í hæfnikort sýnir það framvindu í námi nemenda yfir allt skólaárið og getur gegnt mikilvægu hlutverki við vinnslu vitnisburðar. Þegar vitnisburður er byggður á hæfnikorti felst hann í að draga saman í eina lokaeinkunn fyrir hvert greinasvið þær upplýsingar sem skráðar hafa verið um hæfni nemenda á ólíkum námsþáttum. Sú mynd sem birtist er borin saman við matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla.
Mikilvægt er að það námsmat sem liggur að baki skráningum í hæfnikorti byggi á fjölbreyttum matsgögnum og skýru skipulagi hæfniviðmiða og settra námsmarkmiða sem notuð voru til að kenna nemendum og styðja þau til að ná þeirri hæfni sem skilgreind er í matsviðmiðunum.
Hentugt getur verið að gera grein fyrir skipulagi á notkun matsviðmiða aðalnámskrár samhliða forgangsröðun hæfniviðmiða í skólanámskrá. Slíkt skipulag á framvindu náms og kennslu sýnir hvernig nemendur nálgast þá hæfni sem matsviðmiðin skilgreina jafnt og þétt yfir skólagönguna. Kennarar og stjórnendur skóla geta aðlagað matsviðmið aðalnámskrár fyrir 4. bekk svo þau samræmist forgangsröðun hæfniviðmiða í 1.–3. bekk þegar vitnisburður er gefinn við lok árganga. Á sama hátt má aðlaga matsviðmið 7. bekkjar fyrir 5.–6. bekk og matsviðmið 10. bekkjar fyrir 8.–9. bekk. Við aðlögun matsviðmiða aðalnámskrár fyrir yngri árganga er mikilvægt að gæta samræmis við forgangsröðun hæfniviðmiða í skólanum. Tækifæri eru til að skipta matsþáttum milli árganga þannig að lokamat í yngri árgöngunum verði ekki of umfangsmikið en gefi þó skýr skilaboð um áherslur í námi og kennslu og hvert þurfi að stefna fyrir lok aldursstigsins.
Við vinnslu vitnisburðar fara kennarar yfir hæfnikort í krafti þekkingar sinnar á hverjum nemanda, þeirri vinnu sem liggur að baki og hvaða vægi ólíkum matsþáttum hefur verið gefið í skólanámskrá. Niðurstaðan er svo dregin saman í lokaeinkunnir. Lykilatriði þegar vitnisburður er unninn eru að:
Í viðhengjum má skoða dæmi um hæfnikort ólíkra nemenda við lok 10. bekkjar í íslensku og hvernig vitnisburður er ákvarðaður út frá þeim:
Þegar flokkum matsviðmiðanna er gefið vægi styður það kennara við framkvæmd lokamats og ólíkt vægi flokkanna getur haft afgerandi áhrif á þá niðurstöðu sem skráð er í vitnisburð nemenda. Sem dæmi má nefna að algengt er að lokaeinkunn í íslensku sé dregin saman á þann hátt að meira vægi er lagt á matsviðmið tengd lestri, lesskilningi og ritun og þá er minna vægi sett á aðra flokka svo sem talað mál, hlustun og áhorf, bókmenntir og málnotkun. Ákvarðanir um ólíkt vægi flokka verða að liggja skýrt fyrir áður en kennsla hefst þannig að hægt sé að upplýsa nemendur samhliða námi og kennslu og áður en vitnisburður er unninn.
Til að tryggja samræmd vinnubrögð milli kennara þegar unnið er með ólíkt vægi matsviðmiða getur verið hjálplegt að umrita bókstafseinkunnir í talnakvarða og ákveða vægið í prósentum. Dæmi um slíka útfærslu má skoða hér.
Mikilvægt er að halda því til haga að ef matskvarði aðalnámskrár er yfirfærður á talnakvarða þá þjóni það aðeins tilgangi til að tryggja samræmi við vinnslu og frágang á vitnisburði. Eins og ítrekað hefur verið bent á er mikilvægt í daglegu skólastarfi að takmarka notkun matstákna almennt og leggja áherslu á að rætt sé um viðmið og markmið námsins en ekki einkunnir í samtali við nemendur um námsframvindu þeirra.