Námskráráherslur
Skipulag náms og kennslu
Námsmat og vitnisburður
Stuðningsefni og upplýsingar
Forsiða
Námsmat í hæfnimiðuðu skólastarfiMeð útgáfu nýrrar aðalnámskrár á Íslandi árið 2011 varð mikilvæg áherslubreyting varðandi námsmat og fylgir sú breyting þróun námskrárfræða í nágrannalöndum okkar og leiðbeiningum alþjóðlegra stofnana á borð við OECD (2019). Breytingin felst í því að ekki telst fullnægjandi að námsmat byggi eingöngu á mati á þekkingu nemenda eða leikni í ákveðnum athöfnum, það þarf að gera grein fyrir hæfni þeirra. Í því felst að meta þarf getu þeirra til að skipuleggja, útskýra og nota hugtök um efni viðkomandi greinasviðs. Það er ekki nóg að nemendur geti svarað spurningum á prófum. Við mat á hæfni nemenda þarf að skoða hvort þau geti og noti í raun þekkingu sína og leikni í raunverulegum aðstæðum. Nauðsynlegt er að beita fjölbreyttum aðferðum í slíku námsmati.
Allt námsmat þarf að byggja á matsviðmiðum sem eru í skýrum tengslum við forgangsröðuð hæfniviðmið og sett námsmarkmið sem sundurliða hvað nemendur eiga að læra og þjálfa á hverju námstímabili. Mikilvægt er að matsgögn og matsaðferðir henti til að mæla þau námsmarkmið sem sett eru hverju sinni til að gefa rétta mynd af framförum og námsárangri. Námsmat þarf að sýna á skýran hátt hvort nemendur hafi náð, eða séu að nálgast, þá hæfni sem lýst er í matsviðmiðum. Ferli náms, kennslu og námsmats þarf að skipuleggja í hverjum skóla þannig að fyrir lok 10. bekkjar hafi verið lagður grundvöllur að samfelldu námi sem tryggir nemendum ríkuleg og vel skipulögð tækifæri til að ná þeirri hæfni sem meta á út frá matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla.
Notkun talnaeinkunna eða annarra kvarða sem oft eru notaðir án þess að þeim fylgi skýr matsviðmið sem útskýra í hverju kvarðinn felst, á sér langa hefð og tíðkast víða ennþá. Hæfnimiðað námsmat snýst ekki um slík matstákn, talnaeinkunnir, A–D bókstafseinkunn eða hlutfallseinkunn, heldur hvernig nemendur standa sig miðað við matsviðmiðin. Í stað þess að einkunn á stærðfræðiprófi segi að nemandi hafi svarað 80% dæmanna rétt lýsir hæfnimiðað námsmat hvaða viðmiðum nemandinn hefur náð tökum á, t.d. að hann hafi náð hæfni í hnitakerfinu en þurfi meiri æfingu eða aðstoð til að ná hæfni í jöfnum og ójöfnum.
Skipulag kennara fyrir hvert námstímabil hefst á því að forgangsraða hæfniviðmiðum, setja við þau námsmarkmið og huga að því hvernig hægt sé að mæta ólíkum þörfum nemenda með tilbrigðum við námsmarkmið hópsins. Næsta skref er síðan að lýsa í námsáætlunum hvernig námsmati verði háttað svo að niðurstöður þess muni gefa sem skýrastar upplýsingar um framvindu námsins og námsárangur og uppbyggilega leiðsögn til nemenda um næstu skref í námsferlinu. Velja þarf matsaðferðir sem eru í skýrum tengslum við þau hæfniviðmið og námsmarkmið sem liggja til grundvallar við skipulag náms og kennslu á námstímabilinu. Tryggja þarf að allt námsmat sé þannig úr garði gert að matsviðmið séu skýr og að matsaðferðir meti það sem þeim er ætlað að meta á áreiðanlegan hátt. Matsaðferðir eiga að styðja við nám og kennslu, gefa bestu upplýsingarnar um stöðu nemenda og framvindu á hverju námstímabili og taka tillit til ólíkra þarfa þeirra.
Undanfari alls námsmats er nám og kennsla en í námsmati fer fram mat á því hvort að nám hafi átt sér stað þ.e. hvort nemendur hafi tileinkað sér það sem kennt var. Við allt skipulag námsmats þarf kennari að horfa til þess hvernig námsleið nemenda er vörðuð með hæfniviðmiðum og settum námsmarkmiðum í þeim tilgangi að nemendur nái þeirri hæfni sem lýst er í matsviðmiðum aðalnámskrár við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Mikilvægt er að forgangsraða þeirri hæfni sem lýst er í matsviðmiðum aðalnámskrár og gæta vel að því hvað sé framkvæmanlegt innan þess tímaramma sem nemendur og kennarar hafa. Skipulagið þarf ávallt að taka mið af ólíkri stöðu nemenda og vera sveigjanlegt svo allir nemendur geti unnið út frá stöðu sinni og styrkleikum á hverjum tíma.
Með því að nota fjölbreyttar matsaðferðir er hægt að meta ólíka þekkingu, leikni og hæfni nemenda á öllum stigum námsins. Fjölbreyttar matsaðferðir gefa kennurum tækifæri til að veita nemendum leiðsögn og stuðning í námi á sama tíma og þær gefa nemendum tækifæri til að skilja eigin stöðu, bæta sig og ná margvíslegum markmiðum skólastarfsins. Engin ein leið í námsmati er betri en önnur heldur virka þær best í sameiningu til að veita yfirsýn yfir ólíkar hliðar námsins og áhrif þess á nemendur.
Leiðsagnarmati á að flétta inn í skipulag náms og kennslu á hverju námstímabili og í lok verkefnavinnu og/eða námstímabila fer fram lokamat. Mikilvægt er að kennarar leggi áherslu á leiðsagnarmatið í daglegu starfi, skapi námsumhverfi þar sem nemendur vita að hverju þeir eru að stefna og séu í virku samtali við kennara og námsfélaga um stöðu sína gagnvart námsmarkmiðum. Til að nemendur læri að nýta leiðsögn í náminu er gagnlegt að kynna fyrir þeim hugmyndafræðina um hugarfar vaxtar. Mikilvægt er að kenna nemendum að takast á við áskoranir í náminu og hvetja þau til að setja metnað sinn í að vera virk í eigin námsferli. Nánar má lesa um hugarfar vaxtar í stuðningsefni um leiðsagnarmat á vef aðalnámskrár.
Skólar þurfa að hafa skýra stefnu um hvernig niðurstöður lokamats eru birtar nemendum og forsjáraðilum og hvenær vitnisburður er gefinn. Lýsingar á námsmati í námsáætlunum þurfa að vera í samræmi við stefnu skólans og ákvarðanir sem teknar hafa verið um birtingu niðurstaðna, notkun matskvarða og útgáfu vitnisburðar.
Þótt námsmat sé rauður þráður í gegnum allt skipulag náms og kennslu er ástæða til að vara við því að of mikil orka og athygli fari í lokamat og einkunnagjöf (Hattie og Clarke, 2019). Ef lokamat og einkunnir verða of fyrirferðarmikil er hætta á að kennarar og nemendur upplifi námsmatið sem upphaf og endi alls og leiðsagnarmatið falli í skuggann. Aðalatriði er að sjónum sé stöðugt beint að námsferlinu og leiðsögn til nemenda, að nemendum sé kennt það sem stefnt er að og að kennarar og nemendur séu með athyglina á námsmarkmiðum námstímabilsins. Mikilvægasta verkefni kennara er að fylgjast stöðugt með virkni og árangri nemenda og tryggja að nám eigi sér stað, meðal annars með því að nýta leiðsagnarmat svo nemendur nái þeim námsmarkmiðum sem liggja til grundvallar.
Þegar skólastarf og umræða um það einblínir um of á lokamat, matskvarða og einkunnagjöf er hætta á að nemendur og kennarar missi sjónar á námsferlinu og fari þess í stað að keppa um háar einkunnir. Það getur haft alvarlegar afleiðingar þegar nemendur fara að læra til að ná ákveðinni einkunn fremur en til að efla eigin hæfni. Námshæfni þeirra dvínar sem felst meðal annars í að áhugi þeirra á viðfangsefnunum minnkar, þeir beita síður gagnrýninni og skapandi hugsun í glímu við námsefnið og hafa tilhneigingu til að fara auðveldustu leiðina að settu marki (Kohn, 2011). Með því að leggja áherslu á leiðsagnarmat í námsferlinu fremur en einblína á lokamat eða vitnisburð geta kennarar minnkað líkurnar á að samtalið við nemendur fari í þennan fasa.
Af sömu ástæðu er æskilegt að sleppa alfarið notkun matstákna (einkunna) í leiðbeinandi samtölum og vinnugögnum því þau beina athygli nemenda frá þeim námsmarkmiðum sem stefnt er að og þeim matsviðmiðum um þekkingu, leikni og hæfni sem hafa leiðbeinandi gildi. A-D matskvarði, eins og lýst er í Aðalnámskrá grunnskóla og nota á þegar vitnisburður er gefinn við lok 10. bekkjar, gefur til kynna heildarárangur nemenda á hverju námssviði. Þegar slík einkunn er gefin er búið að draga saman mikið magn gagna um fjölbreytta þætti og því er ekki hægt að nota slíkar hæfnieinkunnir til að greina styrk- og veikleika nemenda og taka ákvarðanir um næstu skref. Ekki er því ætlast til að matstáknin A-D séu notuð í leiðsagnarmati.
Hægt er að nýta sambærilegar matsaðferðir í leiðsagnarmati og lokamati og báðar leiðirnar gegna hlutverki í hringrás mats og kennslu. Munurinn á leiðsagnar- og lokamati felst hins vegar í því hvernig unnið er úr niðurstöðunum. Í leiðsagnarmati er niðurstöðum námsmats miðlað mjög hratt til nemenda, þær ræddar og nýttar til að leiðbeina um næstu skref í náminu, gefa nemendum tækifæri til að gera betur og ná meiri árangri. Í lokamati eru niðurstöður námsmats skráðar sem vörður á námsferli nemenda til lengri tíma og þeim upplýsingum er miðlað heim til forsjáraðila auk þess sem nemendur og kennarar hafa aðgang að þeim. Leiðsagnarmat er stöðugt samtal milli nemenda og kennara á meðan lokamat er birt á formlegri hátt í lok námstímabila.
| Leiðsagnarmat | Lokamat | Vitnisburður | |
|---|---|---|---|
| Til hvers? | Kennari veitir nemendum leiðsögn í daglegu námi og mótar skipulag náms og kennslu. | Kennari gefur upplýsingar um árangur og námslega stöðu nemenda við lok námstímabils. | Kennari gefur upplýsingar um námslega stöðu nemenda innan ákveðinna námsgreina á fyrir fram ákveðnu tímabili. |
| Hvernig? | Námsmarkmið eru sýnileg, rýnd í sjálfsmati og jafningjamati og rædd í samtölum nemenda og kennara eða námsfélaga. | Fjölbreyttum matsaðferðum er beitt til að meta hæfni nemenda á ákveðnum námsþáttum. Mikilvægt að matsviðmið og matsaðferðir séu í samræmi við þau námsmarkmið sem kennd hafa verið. | Felst í að draga saman upplýsingar um námsárangur nemenda og skrá lokaeinkunnir samkvæmt matskvarða aðalnámskrár eða matskvarða sem skóli hefur tekið ákvörðun um að nota. |
| Hvenær? | Fer fram í öllu daglegu starfi. | Framkvæmt við lok námstímabila til að gefa upplýsingar um árangur og námslega stöðu. | Framkvæmdur við lok skólaárs, aldursstiga eða á öðrum tímapunktum sem skóli ákveður. Öllum grunnskóllum er skylt að skrá vitnisburð nemenda við lok grunnskóla. |
| Hvaða viðmið? | Styðst við námsmarkmið sem sett eru við þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar í skipulagi á hverju námstímabili. | Styðst við matsviðmið sem eru byggð á forgangsröðuðum hæfniviðmiðum og settum námsmarkmiðum. Matsviðmið aðalnámskrár eru nýtt þar sem það hentar. | Styðst við matsviðmið aðalnámskrár fyrir 4., 7. og 10. bekk eða útfærslur skóla á þeim fyrir aðra árganga. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að byggja vitnisburð á matsviðmiðum aðalnámskrár. |
| Hvaða matskvarði og matstákn? | Ekki mælt með notkun matskvarða eða matstákna. Samtöl um námið byggja á settum námsmarkmiðum. | Matsviðmið verða að liggja fyrir. Skólar velja hvort þau eru sett á samræmdan kvarða eða hvort kennarar velji kvarða eins og hentar ólíkum viðfangsefnum. Skólar velja líka hvort og þá hvaða matstákn eru notuð í lokamati. | Styðst við matsviðmið, matskvarða og matstákn aðalnámskrár fyrir 4., 7. og 10. bekk eða útfærslur skóla á þeim. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að nota matskvarða aðalnámskrár. |
| Hvar eru upplýsingar skráðar? | Engar skráningar nema þær gagnist í samtali nemenda og kennara um námið og rýni nemenda í eigin stöðu. Námsmarkmið þurfa að vera sýnileg í verkefnalýsingum og námsrýmum. Hægt að nýta leiðsagnarhefti til að halda utan um námssamtöl nemenda og kennara. | Stöðu gagnvart matsviðmiðum. Miðlað til nemenda, forsjáraðila og kennara sem vinna áfram með nemendum. Hentugt að nota námsumsjónarkerfi. | Lokaeinkunnir og umsagnir skráðar í vitnisburðarspjöld (rafræn og/eða útprentuð) sem birt eru nemendum, forsjáraðilum og næsta skólastigi. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að skrá vitnisburð í staðlað vitnisburðarskírteini MMS. |
| Hver ber ábyrgð? | Kennari | Kennari | Skólastjóri |
Sum viðfangsefni, t.d. ýmis hugtök náttúru- eða samfélagsgreina, eru þess eðlis að langur tími getur liðið frá lokamati þar til unnið er með þau á næsta námstímabili. Þá er sérstaklega mikilvægt að kennari hefji námstímabilið á því að kanna fyrri þekkingu nemenda (stöðumat) til að tengja milli námstímabila og byggja á skilningi sem getur verið til staðar þótt hann sé ekki mjög ofarlega í huga nemenda í upphafi nýs námstímabils. Önnur viðfangsefni eru gegnumgangandi á nánast öllum námstímabilum eins og t.d. lesskilningur, samvinna eða miðlanotkun. Í þeim tilfellum getur munurinn á leiðsagnarmati og lokamati minnkað því lokamat eins námstímabils þjónar hlutverki sem könnun í upphafi þess næsta. Kennari getur þá haldið skipulagi náms og kennslu áfram í þeim farvegi sem kominn var af stað og hringrás mats og kennslu heldur áfram enn eina umferð.