Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Námskráráherslur

Skipulag náms og kennslu

Námsmat og vitnisburður

Stuðningsefni og upplýsingar

Forsiða

Umgjörð skóla um nám og kennslu

Umgjörð skóla um nám og kennslu

Skólum er skylt að skilgreina stefnu sína og áherslur og gera grein fyrir þeim í skólanámskrá. Skólastjóri er faglegur leiðtogi og ber ábyrgð á að virkja starfsfólk í faglegt samtal um stefnu skólans og þá umgjörð sem sköpuð er fyrir nám og kennslu. Með reglulegu samtali og skýrum upplýsingum í skólanámskrá skapar skóli þann farveg sem faglegt starf rennur um.

Til að skapa skýra umgjörð um starf kennara, nám og kennslu, þarf starfsfólk skóla að forgangsraða hæfniviðmiðum á árganga og/eða námshópa og hafa sameiginlegan skilning á framvindu náms og skiptingu verkefna milli kennara og nemendahópa innan skólans. Þau þurfa að fylgja þeirri dagskrá sem sett er upp í skóladagatali og stundatöflum og gæta samræmis í skráningu gagna og miðlun upplýsinga til nemenda, forsjáraðila og samstarfsfólks.

Skólaár og námstímabil

Skólum er í sjálfsvald sett hvernig þeir skipuleggja hvert skólaár og gerð er grein fyrir því í skóladagatali. Kennarar, skólastjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar ákveða í sameiningu hvaða atriði þurfi að vera sameiginleg fyrir alla í skólanum. Þetta geta verið atriði á borð við þemadaga, vettvangsferðir, frídaga nemenda og útgáfu vitnisburðar. Mikilvægt er að öllum sé ljóst, nemendum, forsjáraðilum og starfsfólki skólans, hvernig skólaárið er skipulagt, þau fylgist með skóladagatalinu og hagi störfum samkvæmt því.

Innan þess ramma sem skilgreindur er í skóladagatali hvers skóla skipuleggja kennarar síðan námstímabil eins og hentar viðfangsefnum hverju sinni og stöðu nemenda. Námstímabil afmarka vinnu við ólíka námsþætti. Kennarar skrá upplýsingar um markmið, námsmat og verkefnavinnu á hverju námstímabili í námsáætlanir svo að nemendur, forsjáraðilar og samstarfsfólk geti fylgst með starfinu og stutt við nemendur eftir þörfum. Æskilegt er að námstímabili ljúki með lokamati og upplýsingagjöf til foreldra um stöðu hvers nemanda gagnvart þeim matsviðmiðum sem unnið hefur verið að á tímabilinu.

Mælt er með að hvert námstímabil sé um fjórar til sex vikur, frekar en að starfið sé skipulagt inn í annir sem spanna 3–4 mánuði og jafnvel lengri tíma. Kostir styttri námstímabila eru til dæmis:

  • Betri yfirsýn fæst yfir þau hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið sem liggja til grundvallar í námi og kennslu á hverju tímabili.
  • Nám og kennsla verða skilvirkari þegar unnið er með afmörkuð hæfniviðmið og námsmarkmið í styttri, afmarkaðri tíma.
  • Öllum (nemendum, forsjáraðilum, starfsfólki) á að vera ljóst á hvaða hæfniviðmiðum og námsmarkmiðum nám og kennsla byggir á hverjum tíma.
  • Matsviðmið tímabilsins verða afmarkaðri, skýrari og yfirstíganlegri.
  • Leiðsagnarmat verður skilvirkara.
  • Lokamat námstímabils byggir á afmörkuðum og vel skilgreindum matsviðmiðum sem vísa til þeirra hæfniviðmiða og námsmarkmiða sem lögð voru til grundvallar á tímabilinu.

Upplýsingar um frammistöðu nemenda í lokamati á hverju námstímabili eru skráðar og birtar nemanda og forsjáraðilum á skýran hátt. Slíkar skráningar eru mikilvægar svo að kennarar eigi yfirlit um námsferil hvers nemanda og geti nýtt það við mat á framvindu og við vinnslu vitnisburðar. Þótt lokamat sé unnið á flestum námstímabilum er ekki þörf á að birta vitnisburð jafn oft enda felst hann í að draga saman umfangsmiklar upplýsingar og bera stöðu nemenda saman við matsviðmið aðalnámskrár. Ef nemendur og forsjáraðilar fá reglulega upplýsingar um námslega stöðu er nóg að vitnisburður sé unninn í lok skólaárs eða aldursstiga. Nánar er fjallað um framkvæmd námsmats og vinnslu vitnisburðar í öðrum hlutum stuðningsefnisins.

Það er mikilvægt að upphaf námstímabils og vinnulag á meðan á því stendur sé skýrt og skráð í námsáætlanir. Hæfniviðmið og námsmarkmið sem sett eru við þau þurfa að vera sýnileg í áætlunum og daglegu starfi og tengsl þeirra við matsviðmið sem notuð verða á námstímabilinu þurfa að vera skýr. Því skýrari upplýsingar sem nemendur hafa um markmið náms, fyrirkomulag þess og námsmat því betur geta þeir tekið ábyrgð á eigin námi.

Það er einnig mikilvægt að ljóst sé hvenær og hvernig ljúka eigi hverju námstímabili og útskýra það vel fyrir nemendum og forsjáraðilum. Ekki þarf að ljúka öllum námstímabilum eins en mikilvægt að í námsáætlunum sé gerð grein fyrir því hvernig hverju tímabili ljúki, hvort og hvenær lokamat fer fram.

Áður en námstímabili lýkur þurfa nemendur og forsjáraðilar að fá upplýsingar um hvað tekur næst við. Hefst nýtt námstímabil strax? Er annars konar verkefnavika eða uppbrot næst á dagskrá? Eða frí af einhverju tagi? Kennarar gæta þess að skipulag námstímabila taki mið af skóladagatali og starfsáætlun hvers skólaárs svo að allir geti gengið í takt. Þetta flæði milli námstímabila og annars konar starfslota þarf að vera skýrt í námsáætlunum eða öðrum skjölum sem nýtt eru til að halda nemendum og forsjáraðilum upplýstum um verkefnin hverju sinni og framvindu starfsins.

 

Forgangsröðun hæfniviðmiða

Forgangsröðun hæfniviðmiða er mjög mikilvægt ferli og undirstaða í skipulagi náms og kennslu hvers skóla. Forgangsröðunin sýnir hvernig kennarar skóla sammælast um hvenær áhersla er lögð á hvaða hæfniviðmið í kennslu og námsmati árganga skólans. Með skipulagðri forgangsröðun hæfniviðmiða verður til samfellt ferli náms og kennslu í öllum námsgreinum og milli allra árganga í skólanum.

Mikilvægt er að kennarar hvers skóla eða skólasamfélags vinni saman að forgangsröðun hæfniviðmiða á árganga og aldursstig. Þetta faglega samtal og birting á skýru skipulagi fyrir nám og kennslu er forsenda fyrir því að samfella skapist í námi nemenda.

Forgangsröðun hæfniviðmiða felst í að greina öll hæfniviðmið hvers aldursstigs og raða þeim faglega niður á árganga. Við þessa niðurröðun er lagt til að skipta hæfniviðmiðum í þrjá flokka:

  • Forgangshæfniviðmið: Þau hæfniviðmið sem talin eru mikilvægust í hverjum árgangi og á að tengja við lokamat. Þessi hæfniviðmið eru nánar útfærð með því að setja við þau námsmarkmið og liggja þau til grundvallar matsviðmiðum sem notuð eru í lokamati um stöðu nemenda á námstímabilinu. Sum hæfniviðmið eru í þessum flokki í öllum árgöngum, t.d. hæfniviðmið sem tengjast læsi og miðlun. Önnur hæfniviðmið falla í þennan flokk í sumum árgöngum en ekki öllum eða eru jafnvel aldrei forgangshæfniviðmið því þau eru ekki tengd þeim matsviðmiðum sem notuð eru í starfi skólans.
  • Stuðningshæfniviðmið: Hæfniviðmið sem eru líka mikilvæg í námsferli nemenda en hafa minna vægi í tilteknum árgangi og liggja ekki til grundvallar lokamati á því tímabili. Námsmarkmið eru einnig sett við stuðningshæfniviðmið og nýtt til að birta markmið náms til nemenda og leiðbeina þeim áfram. Sum hæfniviðmið eru alltaf stuðningshæfniviðmið vegna þess að ekki er viðeigandi eða mögulegt að framkvæma lokamat í tengslum við þau.
  • Hæfniviðmið sem ekki er unnið með í árganginum. Hæfniviðmið sem eru bara kennd í sumum árgöngum en ekki á dagskrá í öllum árgöngum í skólanum. Þetta eru til dæmis þekkingarviðmið í náttúrugreinum eða samfélagsgreinum sem eru tekin til umfjöllunar einu sinni á hverju aldursstigi en ekki á hverju ári.

Mikilvægt er að forgangsröðun hæfniviðmiða taki mið af áherslum og sérstöðu hvers skóla. Skýrt verklag um forgangsröðun hæfniviðmiða er undirstaða árangursríks skipulags í námi og kennslu. Í námsáætlunum gera kennarar síðan grein fyrir því hvenær og hvernig unnið er með hæfniviðmiðin á hverju námstímabili, hvenær þau séu í forgangi og tekin til lokamats og hvenær þau séu notuð sem stuðningshæfniviðmið.

Með flokkun hæfniviðmiða í stuðningshæfniviðmið og forgangshæfniviðmið á að skapast skýrt samræmi milli hæfniviðmiða og þeirra matsviðmiða sem nýtt eru við framkvæmd lokamats í hverjum árgangi. Einnig getur forgangsröðun hæfniviðmiða komið í veg fyrir að lokamat verði of fyrirferðarmikill hluti skólastarfsins með því að gera greinarmun á stöðu hæfniviðmiða á hverju námstímabili og afmarka fjölda þeirra hæfniviðmiða sem leggja grunn að lokamati hverju sinni.

Í viðhenginu Forgangsröðun hæfniviðmiða, sem finna má hér neðar á síðunni, er dæmi um skjal sem skólar geta nýtt til að forgangsraða hæfniviðmiðum í starfi skólans. Búið er að forskrá öll hæfniviðmið Aðalnámskrár grunnskóla í skjalið og matsviðmið allra aldursstiga sömuleiðis. Leiðbeiningar um notkun skjalsins eru í fremsta flipanum. Skólum er frjálst að laga skjalið að áherslum sínum, til dæmis ef tengsl hæfniviðmiða og matsviðmiða eru skilgreind á annan hátt en sýnt er í skjalinu.

Skráningar og upplýsingamiðlun

Samkvæmt lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) eiga skólar að stuðla að góðu samstarfi við heimili nemenda. Skýr og markviss upplýsingagjöf gegnir lykilhlutverki í því samhengi. Skólar halda utan um mikið magn upplýsinga svo sem fjölbreyttar og oft viðkvæmar upplýsingar um nemendur og öll þau gögn sem skólum ber að halda utan um í skólanámskrá. Það er því talsverð áskorun fyrir starfsfólk skóla að skilgreina hentugar leiðir til að halda utan um þessi gögn og deila þeim eins og þörf er á.

Mikilvægt er að stjórnendur skóla ígrundi vel hvernig skráningum og upplýsingamiðlun er háttað í skólanum og gæti að persónuvernd við vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Mikilvægt er að upplýsingagjöf til forsjáraðila sé í einföldum, skýrum og samræmdum farvegi, hvort sem um er að ræða skilaboð um starfið framundan eða niðurstöður námsmats. Forsjáraðilar vilja fá skýrar upplýsingar um stöðu barns í náminu hverju sinni en nauðsynlegt er að afmarka umfang þeirra gagna sem miðlað er til heimila svo allir geti nálgast þau á einfaldan og fljótlegan hátt. Það er mikilvægt að skólinn geri skýran greinarmun á annars vegar öllum þeim gögnum sem fagfólk skólans safnar, greinir og heldur utan um og hins vegar þeim samantektum sem sendar eru heim (sjá til dæmis umfjöllun Sigurjóns Ólafssonar (2025) um upplýsingamengun frá grunnskólum).

Samtal fagfólks innan hvers skóla um framsetningu og birtingu námsáætlana, skráningu námsmats og notkun matstákna er mikilvæg forsenda fyrir því að allir geti gengið í takt. Slík samræming eykur líkurnar á því að forsjáraðilar viti hvar þeir geta nálgast upplýsingar, skilji þær og taki við þar sem ábyrgð skólans lýkur.