Námskráráherslur
Stuðningsefni og upplýsingar
Skipulag náms og kennslu
Forsiða
Hæfnimiðað skólastarfAðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir að nám og kennsla séu skipulögð út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár en í þeim birtast fjölbreytt viðfangsefni sem tengjast grunnþáttum menntunar og helstu áhersluþáttum laga um grunnskóla.
Í hæfnimiðuðu skólastarfi er lögð áhersla á „að leggja rækt við farsæld og heildstæðan þroska nemenda“ (Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson, 2025). Í samræmi við menntastefnu OECD til ársins 2030 (OECD, 2019) er markmið menntunar að efla hjá nemendum hæfnina til að verða virkir og sjálfstæðir einstaklingar í framtíðarsamfélagi sem tekur stöðugum breytingum. Sem borgarar framtíðarinnar þurfa börn að læra að setja sér raunhæf markmið, sýna getu til aðgerða og ígrunda stöðu mála hverju sinni. Fjölbreytt hæfni einstaklinga og vilji þeirra til að taka virkan þátt í samfélaginu er forsenda fyrir farsæld þeirra.
Sú hæfni sem grunnskólum ber að efla hjá nemendum er ekki bara safn af upplýsingum og aðferðum. Nám í grunnskóla á að veita nemendum vitsmunalegar áskoranir, tækifæri til að skoða viðfangsefni á dýptina, móta sjálfstæða afstöðu og koma hugmyndum í verk. Nám þarf að byggja upp sem ferli þar sem nemendur fá ríkuleg tækifæri til að afla sér grunnþekkingar og færni (grunnnám), byggja síðan dýpri leikni og skilning á þeim grunni (djúpnám) og að lokum setja námið í merkingarbært samhengi með því að tengja hið nýja saman við fyrri þekkingu og reynslu með verkefnum sem krefjast greiningar, ígrundunar, sköpunar og aðgerða (yfirfærslunám) (Guðmundur Engilbertsson, 2013/2025; Jóhann Örn Sigurjónsson og Berglind Gísladóttir, 2025).
Skólastarf byggist á að skapa námsaðstæður þar sem nemendur afla sér þekkingar og leikni og efla hæfni sína. Starfið þarf að vera fjölbreytt þannig að nemendur geti öðlast nýja þekkingu ýmist með samræðu, lestri, hlustun, áhorfi, þrautalausnum eða reynslu af athöfnum. Þeir þurfa að fá margvísleg tækifæri til að þjálfa leikni við notkun aðferða og verklags. Fjölbreyttir starfshættir skóla, sem virkja viðhorf nemenda, gildismat, sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði eru forsenda fyrir því að nemendur geti eflt hæfnina til að nýta þekkingu sína og leikni.
Til að nálgast þá víðtæku hæfni sem lýst er í hæfnimiðaðri námskrá þarf að miða skipulag námsferlisins við mismunandi stöðu og þarfir nemenda og beita fjölbreyttu námsmati í fjölbreyttum tilgangi.
Með hæfni er átt við það hvernig einstaklingur notar þekkingu sína og leikni, það er hvað hann gerir með það sem hann veit (þekking) og getur (leikni). Hæfni er nemendamiðuð og hæfniviðmið eru orðuð þannig að þau vísa til þeirrar hæfni sem stefnt er að því að nemendur nái. Nemendur þurfa að vita hvað þeir vita og hvað þeir geta og vita hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf, siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.
Að beina sjónum að hæfni byggist á ákveðinni sýn á þekkingu og leikni. Þekkingar og leikni er aflað víðar en í skólum og hún getur legið vítt og breytt, hjá nemendum jafnt sem kennurum. Til að skilja umfang hæfniviðmiða er mikilvægt að skoða hvernig þessi þrjú lykilhugtök fléttast saman, þ.e. þekking, leikni og hæfni:
Hæfniviðmið eru náskyld markmiðum sem hafa lengi verið leiðarljós í námskrám. Meginmunurinn er að hæfniviðmið eru yfirleitt víðtækari en markmið. Hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni á meðan markmið eru yfirleitt afmörkuð og vísa annaðhvort til þekkingar eða leikni. Í hæfnimiðaðri námskrá er lögð áhersla á að viðmið lýsi getu nemenda til að nota þekkingu og leikni í fjölbreyttu samhengi.
Námsmat er víða byggt á lýsingum á þeirri hæfni sem stefnt er að hjá nemendum. Í alþjóðlegum könnunum á borð við PISA (Menntamálastofnun, 2023) er hæfni nemenda til dæmis metin og sjónum beint að færni ungmenna í að nýta eigin þekkingu og hæfileika til að takast á við raunveruleg verkefni. Í auknum mæli hefur áhersla verið lögð á hvað nemendur geta gert með það sem þeir læra í skólum en ekki eingöngu hvort þeir mæti lágmarkskröfum um þekkingu eða leikni. Matsverkefni reyna þá ekki aðeins á kunnáttu nemenda í námsgreinum heldur þurfa þeir einnig að greina frá eigin aðferðum við nám, mati á eigin árangri og viðhorfum til náms og námsaðferða.