Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Námskráráherslur

Skipulag náms og kennslu

Námsmat og vitnisburður

Stuðningsefni og upplýsingar

Forsiða

Leiðsagnarmat

Leiðsagnarmat

Leiðsagnarmat (e. formative assessment) snýst um skipulag náms og kennslu og hvernig námsmat er notað til að efla nemendur í námi þeirra. Leiðsagnarmat hefur þann megintilgang að veita nemendum endurgjöf sem leiðir til þess að þeir geti bætt árangur sinn á grundvelli matsins. Til þess að leiðsagnarmat virki sem best er mikilvægt að námsmarkmið séu skýr og að nemendur og kennari viti að hverju er stefnt. Leiðsagnarmat þarf að vera samofið námi nemenda sem gerir kennurum meðal annars kleift að ákveða næstu skref í námsferlinu, efla nemendur og stuðla að framförum þeirra í námi.

Þegar það er algjörlega skýrt hvaða hæfniviðmið og námsmarkmið liggja til grundvallar á námstímabili er sífellt hægt að meta framfarir og veita leiðbeinandi endurgjöf. Þegar nemendur vita að hvaða hæfniviðmiðum þeir stefna og hvaða námsmarkmiðum unnið er að nýtist þeim endurgjöf frá kennara til að skilja hvar þeir eru staddir, hvað þeir hafa gert vel og hvað þarf að bæta. Í leiðsagnarmati eru námsmarkmið í lykilhlutverki og notuð jafnt til að lýsa markmiðum náms og til að veita nemendum endurgjöf á stöðu sína gagnvart þeim.

Með leiðsagnarmati eru nemendur sem þurfa meiri stuðning til að ná námsmarkmiðum gripnir og þeim hjálpað áfram með samtali og stuðningi. Eins er líklegt að þeir nemendur sem með leiðsagnarmati skilja hvað þeir hafa gert vel byggi á því í áframhaldandi námi sínu og bæti hæfni sína. Leiðsagnarmat er þannig þungamiðja í hæfnimiðuðu skólastarfi.

Leiðsagnarmat á að vera valdeflandi og er sett þannig fram að nemendur líti á það sem nauðsynlegan stuðning til þess að ná árangri. Kennsla um hugarfar vaxtar og markviss notkun á orðaforða í anda þess er mikilvæg til að efla námsvitund nemenda og ýta undir að þeir taki ábyrgð á eigin námi. Í kafla 18. lykilhæfni í Aðalnámskrá grunnskóla eru hæfniviðmið undir flokknum Ábyrgð og mat á eigin námi sem henta vel til að skipuleggja þennan námsþátt.

Leiðsagnarmat fer fyrst og fremst fram í samtali nemenda og kennara. Mikilvægt er að hver kennari finni þægilegar leiðir til að halda utan um markmið náms og stöðu nemenda gagnvart þeim svo að tíminn nýtist vel til að leiðbeina nemendum og endurskipuleggja kennsluna þegar þörf er á því. Ekki er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um leiðsagnarmat heim til forsjáraðila, slíkar skráningar gætu orðið óendanlega tímafrekar og vafasamt hvaða tilgangi þær ættu að þjóna. Leiðsagnarmatið þjónar tilgangi í samstarfi nemenda og kennara. Það hjálpar nemendum að sjá tilgang námsins og bera ábyrgð á námsframvindu sinni um leið og það hjálpar kennurum að laga kennsluna að þörfum nemenda hverju sinni.

Kennarar geta lesið nánar um skipulag og aðferðir leiðsagnarmats í stuðningsefni á vef aðalnámskrár.

Sýnileg námsmarkmið

Við skipulag á leiðsagnarmati þarf að huga að því hvernig námsmarkmið eru kynnt fyrir nemendum og gerð sýnileg í daglegu starfi. Námsmarkmið eru skráð í verkefnalýsingar, sett inn í glærupakka fyrir innlagnir, hengd á veggi námsrýma og rædd í samtölum um námið.

Það er mikilvægt að námsmarkmið séu sýnileg og til umræðu í leiðbeinandi samtölum nemenda og kennara. Á meðan á námsferlinu stendur þarf samtalið að snúast um þessi markmið og hvernig þau tengjast matsviðmiðum sem notuð verða í lokamati á námstímabilinu. Það hefur truflandi áhrif fyrir leiðsögn ef námsmarkmið eru tengd um of við matskvarða eða matstákn (einkunnir). Við það færist athygli nemenda frá viðmiðunum að matstáknunum sem verða sjálfstætt keppikefli. Það er því mikilvægt að nota ekki matstákn í leiðsagnarmati.

Í dæmum hér á eftir má skoða hvernig kennarar í nokkrum skólum á Íslandi hafa sett upp verkefnalýsingar þannig að námsmarkmið séu birt á skýran hátt til nemenda.

Dæmi um sýnileg námsmarkmið:

  • Veggspjald sem sýnir námsmarkmið í verkefni um ljóð, myndmál og upplestur á yngsta stigi. (Unnið af MMS.)
  • Leiðsagnarhefti frá skólaárinu 2022–2023 sem sýnir hæfniviðmið og viðmið um árangur í hópverkefni um fyrirmyndir á miðstigi. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar og stjórnenda í Hörðuvallaskóla.
  • Glærukynning frá skólaárinu 2024–2025 sem gefur yfirlit um landafræðiverkefni á unglingastigi og lýsir hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur þurfa að þjálfa og sýna fram á. Verkefnalýsingunum fylgir námsmatsblað þar sem viðmið koma fram. Birt með góðfúslegu leyfi höfunda sem eru kennarar á unglingastigi í Langholtsskóla.
  • Kennsluleiðbeiningar fyrir verkefni sem eflir námsvitund nemenda í tengslum við lesskilning. Birt með góðfúslegu leyfi frá skrifstofu menntasviðs Reykjanesbæjar.

Fjölbreyttar leiðir í leiðsagnarmati

Kennarar nota fjölbreyttar leiðir til að meta hæfni nemenda í námsferlinu. Þekkingu og skilning nemenda á námsefninu má til dæmis meta með samtölum eða skriflegum fjölvalsspurningum. Markmið sem beinast að innlifun, að setja sig í spor annarra eða skoða sjálfan sig verða hins vegar betur metin með ritunarverkefnum, skálduðum skrifum, munnlegum frásögnum og myndrænni eða leikrænni framsetningu. Til að fjölbreytt mat af þessu tagi gagnist í leiðsagnarmati skiptir öllu máli að nemendur viti hver námsmarkmiðin eru og fái tíma til að skoða og ræða frammistöðu sína með hliðsjón af þeim.

Gagnlegt er að virkja nemendur í sjálfsmat og jafningjamat þar sem þeir meta eigin stöðu gagnvart námsmarkmiðum og/eða matsviðmiðum. Í sjálfsmati og jafningjamati læra nemendur að skilja markmið og bera eigin stöðu saman við þau. Með slíkri rýni sjá nemendur hvert þeir eru að stefna og hvað þeir þurfi að gera til að ná settum markmiðum. Sjálfsmat gegnir þannig lykilhlutverki í leiðsagnarmati þótt það teljist ekki nógu áreiðanlegt við lokamat.

Samtöl um námið

Við framkvæmd leiðsagnarmats er virkt samtal kennara við nemendur um markmið námsins og stöðu hvers og eins í námsferlinu aðalatriði. Markmið með samtölum kennara við nemendur, einstaklingslega og í hópum, er að kynna fyrir þeim námsmarkmið, leiðbeina um túlkun þeirra og sýna hvernig frammistaða nemenda er, borin saman við markmiðin.

Það er skýrt markmið með samtölum kennara og nemenda um námið að nemendur fái endurgjöf á stöðu sína í náminu. En þessi samtöl þjóna jafn mikilvægu markmiði sem er endurgjöf frá nemendum til kennara um hvað kennarinn hefur gert sem er hjálplegt og hvernig hann getur aðstoðað enn betur. Kennari getur notað fjölbreyttar leiðir til að fá endurgjöf á hvernig kennsla nýtist nemendum best: Útgöngumiða, stuttar kannanir og samtöl. Mikilvægt er að kennari nýti slíka endurgjöf til að laga eigin störf að þörfum og óskum nemenda.

Mælt er með því að nemendum sé kennt að vinna sem námsfélagar en slík nemendapör taka við samtali um námið í kjölfar kennslu um notkun og túlkun námsmarkmiða frá kennurum. Til að leiðbeina nemendum um hvernig þeir verða góðir námsfélagar má til dæmis nota spurningastofna/setningakveikjur sem þeir hafa til hliðsjónar í samtölum sínum.

Dæmi um fleiri gagnlegar aðferðir í leiðsagnarmati má finna í stuðningsefni um leiðsagnarmat á vef aðalnámskrár.