Námskráráherslur
Skipulag náms og kennslu
Námsmat og vitnisburður
Stuðningsefni og upplýsingar
Forsiða
Þrjú skref í skipulagningu náms, kennslu og námsmatsTil að skólastarf hverfist í kringjum hæfni nemenda er mjög mikilvægt að kennarar ígrundi vel hvernig þeir ætla að skipuleggja nám nemenda og skapa þá reynslu sem stuðlar að öllum hliðum náms: Grunnnámi, djúpnámi og yfirfærslunámi. Kennari þarf að skilgreina markmið náms, skilgreina breytileg markmið til að mæta ólíkum þörfum nemenda, gera áætlun um framkvæmd námsmats og fyrirkomulag náms og kennslu fyrir hvert námstímabil áður en kennsla hefst. Þannig getur hann upplýst nemendur um markmið og leiðir strax í upphafi námstímabilsins og reglulega í námsferlinu. Skýr sýn kennarans á markmiðin gefur honum nauðsynlegar forsendur til að geta fylgst með hvort starfið sé á réttri leið, hvort nemendur nái að tileinka sér þá hæfni sem stefnt er að og hvað þurfi að aðlaga ef eitthvað gengur ekki eins og gert var ráð fyrir í upphafi. Þegar kennarinn hefur sett markmið í forgrunni, ígrundar stöðugt hvernig gengur að ná þeim og aðlagar vinnubrögð þegar þörf er á, eru mestar líkur á að nám nemenda sé í farsælum farvegi og þeir nái góðum árangri (McTighe og Wiggins, 2012).
Í anda þessarar hugmyndafræði er lagt til að nám, kennsla og námsmat sé skipulagt í þremur skrefum fyrir hvert námstímabil (e. backward design eða understanding by design):

Þetta skipulag byggir á hugmyndafræði um hringrás mats og kennslu sem gerir ráð fyrir að skólastarf felist í stöðugri hringrás greiningar, endurskipulags, markmiðssetningar og kennslu, á grunni gagna sem aflað er með reglubundnu mati á stöðu nemenda.

Hæfniviðmið aðalnámskrár lýsa inntaki náms og eiga að vísa veginn í skipulagi skólastarfs. Þau segja til um hvaða þekkingu, leikni og hæfni gert er ráð fyrir að allir nemendur stefni að á skólagöngu sinni. Starfsfólk skóla þarf að hafa sameiginlega sýn á forgangsröðun hæfniviðmiða á skólaár og nemendahópa. Slíkt skipulag er sá grundvöllur sem nám, kennsla og námsmat á hverju aldursstigi byggir á og þegar það liggur fyrir geta kennarar byrjað að skipuleggja hvert námstímabil eins og hentar viðfangsefnum hverju sinni og stöðu nemenda.
Skipulag námstímabils er unnið í þremur skrefum og felst í því að setja námsmarkmið við þau hæfniviðmið sem vinna á með hverju sinni til að sýna á skýran hátt hvað kennarar muni kenna og nemendur eigi að læra. Því næst ákveður kennari hvaða leiðir verða notaðar í leiðsagnarmati og lokamati og hvaða matsviðmið verða nýtt í lokamati á námstímabilinu. Að lokum skipuleggur kennarinn framkvæmd kennslu þar sem ólíkum þörfum nemenda er mætt og leiðsagnarmat notað til að styðja alla nemendur áfram í náminu. Mikilvægt er að sett námsmarkmið séu rauður þráður í öllu skipulaginu, sýnileg í daglegu starfi og að matsviðmið og fyrirkomulag alls námsmats sé í skýrum tengslum við þau.
Lengd námstímabila getur verið breytileg en mikilvægt er að þau séu skipulögð sem afmarkaðar heildir þar sem markmið eru skýr og kennsla og námsmat í samræmi við sett markmið hverju sinni. Mælt er með að hvert námstímabil sé um fjórar til sex vikur til að kennarar, nemendur og forsjáraðilar geti haft yfirsýn og sameiginlegan skilning um markmið og leiðir í náminu.
Skipulag kennara á hverju námstímabili er skráð í námsáætlanir sem birtar eru samhliða starfsáætlun skóla. Í skipulaginu þarf kennari að gæta þess að fylgja stefnu skólans um kennsluhætti, fyrirkomulag námsmats og tengsl þess á hverju námstímabili við vitnisburð nemenda. Hvert námstímabil er mikilvægur hlekkur í námsferli nemenda og því er mikilvægt að flæðið á milli námstímabila sé skýrt og í samræmi við það skipulag sem birt er í forgangsröðun hæfniviðmiða í skólanum.
Hæfniviðmið sýna megináherslur í námi og kennslu, framvindu og dýpkun hvers námsþáttar með hækkandi aldri og þroska nemenda. Þau eiga að stuðla að samræmi milli kennara og skóla, leiðbeina kennurum um hvað þeir eigi að kenna og hvaða leikni og þekkingu nemendur eigi að hafa náð tökum á í lok hvers aldursstigs. Þau hæfniviðmið sem skilgreind eru við lok aldursstigs eiga við um alla árganga stigsins. Hæfniviðmið 10. bekkjar eru lokaáfangastaður allra árganga og hæfniviðmið 4. og 7. bekkjar eru vörður á leiðinni þangað. Þrátt fyrir þessa uppbyggingu námskrárinnar er ekkert í Aðalnámskrá grunnskóla sem setur þak á framvindu nemenda og margir nemendur þurfa lengri tíma til að ná tiltekinni hæfni en skipulag námskrárinnar gefur til kynna. Það er sjálfsagt í einstaklingsmiðun náms að nýta hæfniviðmið og námsmarkmið yngri stiga þegar það hentar betur ákveðnum eldri nemendum og sömuleiðis að nýta markmið eldri árganga þegar nemendur hafa getu til að glíma við þau á yngri aldursstigum.
Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á að skólastarf hvers skóla sé lagað að þeirri stefnu og áherslum sem útlistaðar eru í skólanámskrá. Ávallt er gert ráð fyrir að unnið sé með nemendum eins og hæfir hverjum og einum. Heildarskipulag skóla þarf þó að miðast við þær vörður sem settar eru niður í hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Mikilvægt er að kennarar í hverjum skóla hafi sameiginlega sýn á forgangsröðun hæfniviðmiða sem birtir skipulag hæfniviðmiða innan árganga og á milli árganga og aldursstiga. Þessi sameiginlega sýn og skipulag er mikilvægt svo að samfella í námi nemenda sé skýr.

Þegar kennarar hafa raðað hæfniviðmiðum inn á þau námstímabil sem þeir skipta hverju skólaári í þurfa þeir að setja námsmarkmið við hvert hæfniviðmið. Vegna þess hversu breitt hugtakið hæfni er verða hæfniviðmið yfirleitt marglaga og víðtæk og því er mikilvægt að setja við þau námsmarkmið sem lýsa betur hvað kennarar eigi að kenna og nemendur eigi að læra í verkefnavinnu á hverju námstímabili. Námsmarkmið eiga að varða þá leið sem farin er í námi svo nemendum sé ljóst hvaða væntingar gerðar eru til þeirra og á hvaða forsendum námsmat mun fara fram.
Námsmarkmið eru sett við hæfniviðmið til að lýsa því sem nemendur þurfa að vita, geta og gera til að ná þeirri hæfni sem að er stefnt í ákveðnu verkefni eða námstímabili. Setja þarf námsmarkmið bæði við forgangsröðuð hæfniviðmið og stuðningshæfniviðmið til að sýna hvernig unnið er með þau á hverju námstímabili. Námsmarkmið sem sett eru við forgangsröðuð hæfniviðmið er síðan oft hentugt að nota sem matsviðmið í lokamati námstímabilsins.
Námsmarkmið eru skráð í verkefnalýsingar og önnur þau skjöl sem notuð eru til að lýsa inntaki náms og kennslu, kennslustunda og námsmats. Þau eiga að vera afmörkuð og skýr og hæfa þroska nemenda á hverju aldursstigi. Þau verða líka að vera raunhæf með tilliti til tímans sem er til reiðu og aðstæðna sem eru fyrir hendi.
Við val á námsmarkmiðum er gott að velta fyrir sér hvort þau vísi til þekkingar, leikni eða hæfni og gæta þess að viðeigandi jafnvægi sé milli þessara þátta þegar unnið er að hverju hæfniviðmiði. Á vef aðalnámskrár má finna dæmi um hvernig hægt er að setja fjölbreytt námsmarkmið við hvert einasta hæfniviðmið í öllum námsgreinum (að undanskildum hæfniviðmiðum í íslensku táknmáli og íslensku sem öðru tungumáli). Þar má meðal annars finna þessi dæmi úr námskrá fyrir hönnun og smíði:
| Hæfniviðmið | Við lok 4. bekkjar getur nemandi þekkt algengustu verkfæri í trésmíði og útskýrt á einfaldan hátt virkni þeirra, | Við lok 7. bekkjar getur nemandi þekkt ýmis verkfæri og mælitæki sem notuð eru í formun smíðaefna og útskýrt virkni þeirra, | Við lok 10. bekkjar getur nemandi þekkt helstu verkfæri og mælitæki sem notuð eru í formun smíðaefna og útskýrt rétta notkun þeirra og virkni, |
|---|---|---|---|
| Námsmarkmið | 2.–4. bekk … þekkt og beitt nokkrum algengustu handverkfærum (þekking og leikni) | 5.–7. bekk … beitt algengustu handverkfærum og umgengist á viðeigandi hátt (leikni) | 8.–10. bekk … beitt algengustu handverkfærum, umgengist og sinnt lágmarks viðhaldi (leikni) |
| Námsmarkmið | 1.–4. bekk … þekkt og nefnt algengustu handverkfæri (þekking) | 5.–7. bekk … greint á milli líkra verkfæra og þekkir helstu yfirflokka (þekking) | 8.–10. bekk … þekkt yfirflokka verkfæra, getur valið verkfæri og tæki við hæfi (þekking og hæfni) |
Dæmin um námsmarkmið á vef aðalnámskrár sýna mögulegar leiðir sem hægt er að fara til að setja upp samfellu í námi og kennslu. Skólum er frjálst að nýta þessi dæmi, aðlaga þau eða skrifa eigin námsmarkmið. Hér er farið yfir hvar dæmi um námsmarkmið er að finna:

Þegar námsmarkmið hafa verið sett við forgangshæfniviðmið og stuðningshæfniviðmið á hverju námstímabili sýna þau vel hvert inntak námsins er og gefa þannig mikilvægar upplýsingar um:
Mikilvægt er að kynna námsmarkmið fyrir nemendum í upphafi námstímabils og gæta þess að þau séu ávallt sýnileg á meðan nemendur vinna að þeim. Þegar nemendur vita hver námsmarkmið eru og fá góða kennslu í lykilhugtökum efnisins aukast líkur á að þeir skilji til hvers er ætlast af þeim og nái meiri árangri. Í umfjöllun um leiðsagnarmat eru gefin nokkur dæmi um hvernig kennarar hafa sett upp verkefnalýsingar svo að námsmarkmiðin séu sýnileg nemendum.
Þegar kennari velur hæfniviðmið og setur námsmarkmið fyrir hvert námstímabil er mikilvægt að samhliða sé hugað að því hvernig hægt sé að laga námsmarkmið að ólíkum þörfum nemenda. Fyrir flesta nemendur er mögulegt að hnika námsmarkmiðum hópsins til, nýta námsmarkmið yngri eða eldri árganga eða breyta fyrirkomulagi verkefnavinnu og verkefnaskila. Þessir nemendur fá þá sömu verkefnalýsingar og hópurinn en í leiðbeinandi samtölum lagar kennarinn námsmarkmiðin að þörfum hvers og eins. Aðrir nemendur þurfa meiri aðlögun og er þá gerð grein fyrir henni í einstaklingsnámskrám. Í þeim tilfellum geta frávik frá námsmarkmiðum hópsins verið meiri og námsmat aðlagað að þeim.
Með því að hugsa um ólíkar þarfir allra nemenda við markmiðssetningu og skipulag verkefna getur kennari séð fyrir hindranir sem nemendur geta mætt í náminu og komið í veg fyrir að þær verði óyfirstíganlegar með tilheyrandi áhrifum á nám, hegðun og sjálfsmynd nemenda.
Í fylgiskjalinu Markmiðssetning er dæmi um hvernig kennari getur sett upp yfirlit um ólík námsmarkmið nemenda á þann hátt að þau séu í skýru samhengi við hæfniviðmiðin sem unnið er að, matsviðmið og verkefnalýsingar sem notaðar verða á námstímabilinu.
Skólar og kennarar nota margvísleg skjöl til að halda utan um skipulag starfs og birta upplýsingar til nemenda og foreldra. Þessi skjöl eru ýmist stafræn eða handskrifuð, stundum sett upp innan námsumsjónarkerfa, stundum í ritvinnsluskrám eða töflureiknum samkvæmt skapalónum sem þróuð hafa verið í skólanum.
Hér á síðunni má sækja skapalón sem styðja við þrjú skref í skipulagi náms, kennslu og námsmats. Skjölin eru opin og kennarar geta aðlagað þau að vild.
Forgangsröðun hæfniviðmiða – Áherslur skóla þvert á greinasvið og skólaár. Excel skjal, með forskráðum hæfniviðmiðum og matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla, sem skóli getur notað til að hafa yfirsýn um hvernig áherslur skiptast milli árganga.
Markmiðssetning – Skipulag kennara. Excel skjal sem kennari getur nýtt til að hafa yfirlit um tengsl hæfniviðmiða, námsmarkmiða og matsviðmiða í einstaklingsmiðun náms.
Námsáætlun – Yfirlit um skipulag náms, kennslu og námsmats í einni námslotu. Word skjal sem samsvarar þremur skrefum í skipulagningu náms, kennslu og námsmats.
Kennslustundaskipulag. Word skjal með dæmi um skipulagsramma kennara fyrir eina kennslustund.
Einstaklingsnámskrá – Væntanlegt.