Námskráráherslur
Skipulag náms og kennslu
Námsmat og vitnisburður
Stuðningsefni og upplýsingar
Forsiða
Kennslufræðileg stefna skólaGrunnskóli er mikilvægur grundvöllur þess að samfélagið tryggi öllum börnum almenna menntun og skólunum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt samkvæmt þeim forsendum sem lýst er í lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) og Aðalnámskrá grunnskóla. Skólar hafa verulegt svigrúm og sjálfstæði til að skipuleggja nám í samræmi við þarfir og aðstæður á hverjum stað. Þess vegna er mikilvægt að í hverjum skóla sé mörkuð skýr fagleg stefna sem byggir á samtali starfsfólks og túlkun á inntaki Aðalnámskrár grunnskóla. Samræmdur skilningur kennara á lykilhugtökum á borð við hringrás mats og kennslu, leiðsagnarmat, lokamat og matstákn styður þá í daglegu starfi og er forsenda fyrir því að nám og kennsla í skólanum séu skipulögð og framkvæmd af fagmennsku.
Kennsla er starf sem býður stöðugt upp á nýjar áskoranir. Faglegt samtal innan skólanna um fjölbreytta kennsluhætti og ólíkar leiðir til að mæta þörfum allra nemenda skapar frjóan jarðveg fyrir starfsfólkið sem þarf stöðugt að leita nýrra lausna á margvíslegum viðfangsefnum.
Aðalnámskrá grunnskóla áréttar ákvæði grunnskólalaga um rétt allra barna á að fá kennslu við sitt hæfi svo að menntun í grunnskóla stuðli að alhliða þroska allra barna. Gera þarf grein fyrir kennslufræðilegri stefnu skólans í skólanámskrá og leiðbeina kennurum um hvernig þeir vinna í samræmi við þá stefnu. Þegar kennari skipuleggur nám og kennslu er mikilvægt að hann nýti fjölbreyttar aðferðir til að höfða til ólíkra þarfa. Faglegt samtal kennara er lykilatriði til að dreifa góðum hugmyndum og stuðla að samræmi milli kennara þannig að allir nemendur fái sem best námstækifæri. Stjórnendur grunnskóla þurfa að tryggja svigrúm í þetta samtal.
Kennsla er umfangsmikið starf og við skipulag hennar þarf kennari að horfa til margra þátta. Námsrými þarf að setja upp á skipulagðan hátt svo að allir nemendur fái góð tækifæri til að einbeita sér að verkefnum sem veita hæfilegar áskoranir. Skýr fyrirmæli og rútínur hjálpa nemendum að skilja til hvers er ætlast af þeim. Leggja þarf áherslu á að efla námshæfni nemenda og er lykilhæfnin mikilvægur kafli í Aðalnámskrá grunnskóla í því samhengi. Samþætting gefur tækifæri til að vinna að hæfniviðmiðum úr ólíkum námsgreinum innan sama tímaramma og tengja verkefni nemenda við veruleika þeirra. Með því að gefa nemendum val um viðfangsefni, úrvinnslu og leiðir er líklegra að hægt sé að virkja áhuga allra.
Kennarar þurfa að líta á það sem sitt mikilvægasta verkefni að veita nemendum markvissa leiðsögn í námi. Þegar markmið náms eru skýr, samskipti góð í kennslustofunni, verkefni vel framsett og leiðsögn stöðug eykst ábyrgð nemenda á eigin námi, áhugi þeirra er virkjaður og árangur eykst í kjölfarið.
Kennarar ættu að horfa til rannsókna á skólastarfi og nýta niðurstöður þeirra við þróun eigin starfs. Sem dæmi má nefna bókina Gæði kennslu, námstækifæri fyrir alla nemendur (Rúnar Sigþórsson, Hermína Gunnþórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir, 2025) sem byggir á rannsókn á framkvæmd kennslu í 8. bekkjum á Norðurlöndunum. Í bókinni er mælt með kennsluskipulagi og -aðferðum sem virkja áhuga og hugsun nemenda og stuðla að betri námsárangri.
Skóli án aðgreiningar er grundvallarhugtak í skólastefnu á Íslandi, sjá t.d. Aðalnámskrá grunnskóla kafla 7.3. Mæta þarf náms- og félagslegum þörfum hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Til að mæta þörfum allra nemenda er nauðsynlegt að huga að fjölbreytileikanum í öllu skipulagi skólastarfs. Stjórnendur skóla þurfa að styðja vel við starfsfólk svo þetta sé mögulegt. Þekking á fjölbreytilegri mannflóru og ólíkum þörfum þarf að vera til staðar sem og það viðhorf að hægt sé að mennta alla nemendur innan skólans. Þegar grunnur er lagður að skólanámskrá og námsáætlunum þarf að gæta þess að skjölin geri ráð fyrir einstaklingsmiðun. Í áætlunum þarf að sjást að kennarinn gangi inn í hverja kennslustund með sveigjanlega dagskrá og fjölbreytt verkefni sem hægt er að laga að ólíkum þörfum nemenda án þess að einstakir nemendur upplifi sig jaðarsetta eða ófæra um að vinna verkefni samhliða öðrum í bekknum.
Þegar skólar marka sér kennslufræðilega stefnu er mikilvægt að hún byggi á þeirri sýn að mat á hæfni og framförum nemenda eigi að vera reglubundinn þáttur í skólastarfi. Nám og kennslu á að skipuleggja með aðferðum leiðsagnarmats og lokamat á að fara fram við lok námstímabila. Staða nemenda er síðan skráð í vitnisburð við lok árganga, aldursstiga eða á öðrum tímapunktum sem ákveðnir eru í hverjum skóla.
Með því að halda vel utan um hvernig nemendur standa sig í námi og hvernig framvinda þeirra er með öflugu leiðsagnarmati, gefst starfsfólki skóla tækifæri til að breyta og bæta kennslu til að ná betur til nemenda. Upplýsingar sem fást með öllu námsmati á að nota til að skipuleggja næstu skref í kennslu þannig að námsþörfum allra nemenda sé mætt. Síðan eru þeir metnir aftur til að sjá hvernig til hefur tekist með þeim kennsluaðferðum, viðfangsefnum og þjálfun sem notast var við. Þetta kallast hringrás mats og kennslu.

Hringrás mats og kennslu birtist bæði í þröngu og víðu samhengi í skólastarfinu. Á venjulegum skóladegi fer kennari inn í hverja kennslustund með ákveðin markmið í huga. Hann sér svo að þau henta ekki öllum og aðlagar þá markmiðin og verkefni í samtali við einstaka nemendur til að bregðast við því. Kennarinn styður nemendur áfram í ferlinu út frá því sem hann sér í samtölum við þá á meðan á kennslunni stendur. Þetta er það sem við köllum leiðsagnarnám.
Hringrás mats og kennslu birtist líka í langtímasamhengi skólastarfsins, sem ákveðinn taktur sem kennarar vinna eftir á námstímabilum og skólaárum. Kennarar skipuleggja markmið náms og skrá þau í námsáætlanir sem þeir kenna samkvæmt. Svo leggja þeir fyrir lokamat og nýta samræmd mælitæki á borð við Matsferil til að taka stöðu á nemendum á ákveðnum tímapunktum yfir árið. Á grundvelli niðurstaðna úr lokamati og Matsferli eru áætlanir aðlagaðar svo að þær mæti raunverulegum þörfum nemenda í næstu námslotum.
Námsmat er órjúfanlegur hluti af skólastarfi og megintilgangur þess er að valdefla nemendur með því að leiðbeina þeim um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess. Námsmat á að hvetja nemendur áfram, örva þá til framfara, meta hverjir þurfa á sérstakri aðstoð að halda og stuðningi þegar næstu skref eru tekin.
Námsmat er ferli sem felst í að safna saman upplýsingum um árangur náms og kennslu á markvissan hátt og frá ýmsum sjónarhornum. Með námsmati safna kennarar upplýsingum um að hvaða marki nemendur hafi tileinkað sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem stefnt var að samkvæmt þeim hæfniviðmiðum, námsmarkmiðum og matsviðmiðum sem lágu til grundvallar námi og kennslu á námstímabilinu. Skýr tengsl námsmats við þau hæfniviðmið og námsmarkmið sem unnið er með hverju sinni eru forsenda þess að unnt sé að nýta upplýsingarnar til að bæta nám og kennslu og styðja nemendur áfram í náminu.
Námsmat á að veita nemendum leiðsögn og forsjáraðilum, kennurum, öðru starfsfólki skóla, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda, hæfni þeirra, vinnubrögð og framfarir. Mikilvægt er að vanda vel alla framsetningu á upplýsingum sem tengjast námsmati og huga að ólíkum þörfum kennara, nemenda og forsjáraðila í því sambandi. Birting námsmats verður að vera nógu skýr til að allir aðilar geti skilið helstu niðurstöður námsmats á sambærilegan hátt sem er forsenda þess að hver og einn geti brugðist við á réttan hátt með hrósi, stuðningi eða bættum kennsluháttum eftir atvikum.
| Leiðsagnarmat | Lokamat | Vitnisburður | |
|---|---|---|---|
| Til hvers? | Kennari veitir nemendum leiðsögn í daglegu námi og mótar skipulag náms og kennslu. | Kennari gefur upplýsingar um árangur og námslega stöðu nemenda við lok námstímabils. | Kennari gefur upplýsingar um námslega stöðu nemenda innan ákveðinna námsgreina á fyrir fram ákveðnu tímabili. |
| Hvernig? | Námsmarkmið eru sýnileg, rýnd í sjálfsmati og jafningjamati og rædd í samtölum nemenda og kennara eða námsfélaga. | Fjölbreyttum matsaðferðum er beitt til að meta hæfni nemenda á ákveðnum námsþáttum. Mikilvægt að matsviðmið og matsaðferðir séu í samræmi við þau námsmarkmið sem kennd hafa verið. | Felst í að draga saman upplýsingar um námsárangur nemenda og skrá lokaeinkunnir samkvæmt matskvarða aðalnámskrár eða matskvarða sem skóli hefur tekið ákvörðun um að nota. |
| Hvenær? | Fer fram í öllu daglegu starfi. | Framkvæmt við lok námstímabila til að gefa upplýsingar um árangur og námslega stöðu. | Framkvæmdur við lok skólaárs, aldursstiga eða á öðrum tímapunktum sem skóli ákveður. Öllum grunnskóllum er skylt að skrá vitnisburð nemenda við lok grunnskóla. |
| Hvaða viðmið? | Styðst við námsmarkmið sem sett eru við þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar í skipulagi á hverju námstímabili. | Styðst við matsviðmið sem eru byggð á forgangsröðuðum hæfniviðmiðum og settum námsmarkmiðum. Matsviðmið aðalnámskrár eru nýtt þar sem það hentar. | Styðst við matsviðmið aðalnámskrár fyrir 4., 7. og 10. bekk eða útfærslur skóla á þeim fyrir aðra árganga. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að byggja vitnisburð á matsviðmiðum aðalnámskrár. |
| Hvaða matskvarði og matstákn? | Ekki mælt með notkun matskvarða eða matstákna. Samtöl um námið byggja á settum námsmarkmiðum. | Matsviðmið verða að liggja fyrir. Skólar velja hvort þau eru sett á samræmdan kvarða eða hvort kennarar velji kvarða eins og hentar ólíkum viðfangsefnum. Skólar velja líka hvort og þá hvaða matstákn eru notuð í lokamati. | Styðst við matsviðmið, matskvarða og matstákn aðalnámskrár fyrir 4., 7. og 10. bekk eða útfærslur skóla á þeim. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að nota matskvarða aðalnámskrár. |
| Hvar eru upplýsingar skráðar? | Engar skráningar nema þær gagnist í samtali nemenda og kennara um námið og rýni nemenda í eigin stöðu. Námsmarkmið þurfa að vera sýnileg í verkefnalýsingum og námsrýmum. Hægt að nýta leiðsagnarhefti til að halda utan um námssamtöl nemenda og kennara. | Stöðu gagnvart matsviðmiðum. Miðlað til nemenda, forsjáraðila og kennara sem vinna áfram með nemendum. Hentugt að nota námsumsjónarkerfi. | Lokaeinkunnir og umsagnir skráðar í vitnisburðarspjöld (rafræn og/eða útprentuð) sem birt eru nemendum, forsjáraðilum og næsta skólastigi. Við lok grunnskóla ber skólum skylda til að skrá vitnisburð í staðlað vitnisburðarskírteini MMS. |
| Hver ber ábyrgð? | Kennari | Kennari | Skólastjóri |
Þegar unnið er að námsmati, í stefnumótun og skipulagi daglegs skólastarfs, þarf að aðgreina leiðsagnarmat, lokamat og vitnisburð og í skólanámskrá þarf að vera umfjöllun um stefnu skóla og útfærslu á hverjum þessara þátta. Þótt allt námsmat vísi til þeirra hæfniviðmiða og námsmarkmiða sem unnið er með á hverju námstímabili, er mikilvægt að beita ólíkum vinnubrögðum við framkvæmdina sem og við skráningu og birtingu upplýsinga til nemenda og forsjáraðila.
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla (9. kafli) þarf hver skóli að gera grein fyrir fyrirkomulagi námsmats og því vitnisburðarkerfi sem nota skal. Mikilvægt er að nemendum, forsjáraðilum og öllu starfsfólki skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar í náminu og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar.
Í skólanámskrá á að lýsa hvaða áherslur eru settar í tengslum við leiðsagnarmat og lokamat. Í lýsingu á leiðsagnarmati þarf að fjalla um hvernig nemendum er kennt að horfa á nám sem ferli, rækta hugarfar vaxtar og nýta námsmarkmið og endurgjöf til að ígrunda stöðu sína og halda áfram í námsferlinu. Skýrt þarf að koma fram að í leiðsagnarmati eru notuð viðmið sem lýsa hvert nemendur stefna (hæfniviðmið, námsmarkmið) en ekki matstákn eða einkunnir sem beina athygli nemenda frá ígrundun um stöðu sína í námsferlinu.
Skólar þurfa að gera grein fyrir því í skólanámskrá hvernig lokamat námstímabila er unnið og hvort eða hvernig nemendur hafa tækifæri til að endurtaka lokamat áður en gengið er frá vitnisburði. Lýsa þarf hvernig kennarar skilgreina þau matsviðmið sem liggja til grundvallar lokamati. Skýr matsviðmið eru forsenda fyrir því að kennari, nemandi og forsjáraðilar skilji á sama hátt stöðu nemenda í náminu. Matsviðmið geta verið sömu setningar og kennarar hafa notað við setningu námsmarkmiða. Þau má líka sækja beint í Aðalnámskrá grunnskóla þar sem matsviðmið eru birt fyrir lok 4., 7. og 10. bekkjar. Matsviðmiðin er viðeigandi að birta í námsáætlunum eða námsumsjónarkerfum og ræða í daglegu starfi með nemendum. Í skólanámskrá er hægt að vísa til þessara skjala þegar lýst er hvernig kennarar setja matsviðmið í starfinu.
Við skráningu á niðurstöðum lokamats og birtingu til nemenda og forsjáraðila er hægt að nota matskvarða og matstákn og þarf skóli að lýsa þeim og notkun þeirra í skólanámskrá. Mikilvægt er að innan hvers skóla sé samræmt hvort og þá hvernig kvarði og tákn eru notuð til að auðvelda öllum aðilum að skilja framsetningu upplýsinga á sama hátt. Matsviðmið, -kvarði og -tákn Aðalnámskrár grunnskóla eru birt fyrir lok 4., 7. og 10. bekkjar. Skólum er skylt að nota matskvarða 10. bekkjar við útskrift úr grunnskóla en við lok yngri aldursstiga eru matsviðmiðin leiðbeinandi og hver skóli þarf að gera grein fyrir því hvort og hvernig þau eru notuð.
Í skólanámskrá hvers skóla þarf að lokum að lýsa hvort, hvenær og hvernig formlegur vitnisburður er unninn og birtur. Skólar hafa val um fyrirkomulag vitnisburðar og notkun matskvarða og matstákna í 1.-9. bekk en er skylt að skrá vitnisburð í samræmi við matsviðmið og sex þrepa A-D matskvarða aðalnámskrár við lok 10. bekkjar.
Þegar kennarar skipuleggja nám og kennslu þurfa þeir að huga samhliða að framkvæmd námsmats og birtingu niðurstaðna þess. Kennarar nota matsviðmið við mat á stöðu nemenda en þau eru lýsingar á því hvort nemandi hafi náð tökum á ákveðinni þekkingu, leikni eða hæfni. Matsviðmið geta verið bæði efnismikil og á nokkuð flóknu máli. Þótt kennarar skilji matsviðmið og viti hvernig þeir noti þau til að lýsa stöðu nemenda er ekki alltaf gagnlegt að birta námsmat til forsjáraðila með öllum textanum sem felst í matsviðmiðum. Skýr og samræmd notkun á matstáknum (einkunnum) og matskvörðum getur einfaldað miðlun upplýsinga um námslega stöðu nemenda til muna.
Samkvæmt almenna hluta Aðalnámskrár grunnskóla (kafla 9.2) á hver skóli að gera grein fyrir matsviðmiðum og matskvarða skólans í skólanámskrá. Mikilvægt er að niðurstöður námsmats séu birtar á skýran og aðgengilegan hátt. Nemendur, starfsfólk og forsjáraðilar verða að hafa sameiginlegan skilning á þeim matskvörðum og matstáknum sem notuð eru svo að allir hafi sömu sýn á námslega stöðu barnsins.
Matsviðmið eru alltaf hugsuð í samhengi við einhvern matskvarða sem lýsir ólíkri stöðu gagnvart viðmiðinu. Þegar niðurstöður lokamats eða vitnisburðar er settar fram með matstáknum er mikilvægt að fyrir liggi skýr matskvarði sem skilgreinir og lýsir þeim viðmiðum um námslegan árangur sem matstákn vísa til. Í skólanámskrá þarf að gera grein fyrir ákvörðunum skólans um notkun matstákna og matskvarða, hvort og hvernig þau eru notuð í lokamati og vitnisburði nemenda.
Matskvarðar geta verið allt frá tveggja þrepa upp í 10-20 þrepa kvarðar og matstákn eru notuð til að vísa til ólíkra þrepa á fljótlegan hátt. Einfaldastur er tveggja þrepa kvarði þar sem matsviðmiðið stendur bara eitt og sér og er notað til að greina hvort nemendur hafi náð því sem stefnt var að eða ekki. Hentugt er að nota tveggja þrepa matskvarða þegar verið er að meta afmarkaða þekkingu eða færniþætti og hægt er að skera úr um það á einfaldan hátt hvort nemendur hafi náð viðkomandi færni. Í tveimur töflur hér á eftir eru dæmi um slíka tveggja þrepa matskvarða þar sem námsmarkmið, í tónlist annars vegar og upplýsinga- og tæknimennt hins vegar, eru notuð sem matsviðmið.
| Matsviðmið | Hæfni náð | Hæfni ekki náð ennþá |
|---|---|---|
| Nemandi getur klappað í takt við tónlist. | X |
| Matsviðmið | Hæfni náð | Hæfni ekki náð ennþá. |
|---|---|---|
| Nemandi getur opnað og lokað vafra. | X |
Þegar matsviðmið fjalla um hæfni eða nokkra færniþætti í einu hentar betur að setja það á kvarða með fleiri en tveimur þrepum til að gefa svigrúm í matinu og geta gert grein fyrir því að nemendur geti verið komnir mislangt í námsferlinu. Í töflunni hér að neðan má sjá dæmi um hvernig hægt er að skilgreina uppbyggingu fjögra þrepa matskvarða og útfæra matsviðmið í samfélagsgreinum á slíkum kvarða.
| Þrep matskvarða | 1 | 2 | 3 | 4 |
|---|---|---|---|---|
| Einkunnarorð | Þarfnast þjálfunar | Á góðri leið | Hæfni náð | Framúrskarandi hæfni |
| Almenn lýsing á merkingu matsþrepsins | Nemandi sýnir hæfni að litlu leyti. Þarf frekari þjálfun við ákveðna þætti. | Nemandi sýnir sæmilega hæfni. Þarf stuðning við ákveðna þætti. | Nemandi sýnir góða hæfni samkvæmt þeim viðmiðum sem liggja til grundvallar og fá frávik eru á frammistöðu. | Nemandi sýnir framúrskarandi hæfni og frammistaða er mjög stöðug. |
| Brot úr matsviðmiðum aðalnámskrár fyrir samfélagsgreinar í 7. bekk | Nemandi tjáir hugmyndir sínar um samfélagsleg málefni á óskýran hátt og tekur ekki afstöðu til málefna. | Nemandi getur að einhverju leyti fjallað um samfélagsleg málefni og myndað sér skoðanir. | Nemandi getur fjallað um samfélagsleg málefni frá ólíkum sjónarhornum og myndað sér skoðanir. | Nemandi getur á fjölbreyttan og skipulegan hátt fjallað um samfélagsleg málefni frá ólíkum sjónarhornum, myndað sér skoðanir og fært rök fyrir þeim. |
| Námsmarkmið í samfélagsgreinum notað sem matsviðmið og sett á fjögurra þrepa kvarða | Nemandi getur ekki útskýrt hugtökin réttindi og forréttindi á fullnægjandi hátt og þarf frekari kennslu. | Nemandi getur skilgreint hugtökin réttindi og forréttindi eins og gert er í námsefni og útskýrt muninn á þeim að nokkru leyti. | Nemandi sýnir góðan skilning á hugtökunum réttindi og forréttindi og getur útskýrt muninn á þeim með eigin orðum. | Nemandi sýnir framúrskarandi skilning á hugtökunum réttindi og forréttindi og getur útskýrt muninn á þeim í máli, myndum og með viðeigandi líkingum. |
Í töflu hér á eftir er sýnt hversu fjölbreytt matstákn hægt er að nota á fjögra þrepa kvarða. Matstákn er hægt að nota við lokamat og vinnslu vitnisburðar á öllum greinasviðum. Mikilvægt er að hver skóli setji sér skýra stefnu og samræmi notkun matstákna og matskvarða innan skólans til að ýta undir sameiginlegan skilning allra aðila á þeim.

Þótt matstákn einfaldi framsetningu á niðurstöðum námsmats er mikilvægt að muna að þau vísa alltaf til þeirra matsviðmiða sem stefnt hefur verið að í námsferlinu. Í leiðsagnarmati og samtali kennara og nemenda um námið er mikilvægt að horfa til viðmiða og námsmarkmiða en ekki matstáknanna. Þegar einblínt er á matstákn er hætta á að athygli nemenda færist frá námsferlinu og hvað þau þurfi að gera til að bæta sig og á það eitt að fá ákveðna einkunn. Nánar má lesa um leiðsagnarnmat í öðrum hlutum stuðningsefnisins.
Í Aðalnámskrá grunnskóla eru birt matsviðmið sem lýsa þeirri hæfni sem nemendur eiga að hafa náð við lok 4., 7. og 10. bekkjar á hverju greinasviði. Matsviðmiðum aðalnámskrár er raðað á fjögurra til sex þrepa kvarða og hvert þrep er tengt matstákni sem er bókstafur. Í allri vinnu skóla með matsviðmið, matskvarða og matstákn er mikilvægt að kennarar hafi matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla alltaf til hliðsjónar því skylt er að nota þann matskvarða við útskrift úr grunnskóla. Nánar má lesa um matskvarða Aðalnámskrár grunnskóla hér.