Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Námskráráherslur

Skipulag náms og kennslu

Námsmat og vitnisburður

Stuðningsefni og upplýsingar

Forsiða

Lokamat

Lokamat

Kennarar bera ábyrgð á að safna saman gögnum um hæfni nemenda og birta upplýsingar um námsárangur fyrir lok námstímabila. Við skipulagningu náms og kennslu þurfa kennarar að fylgja stefnu skóla um hvenær og hvernig lokamat er unnið og birt. Við lokamat þarf að meta hvort tilteknum matsviðmiðum hafi verið náð og miðla upplýsingum um námsárangur nemenda til þeirra sjálfra, forsjáraðila og kennara sem halda áfram vinnu með nemendum. Skilaboðin eru mikilvæg svo að allir aðilar fái reglulega upplýsingar um hvaða hæfni var verið að þjálfa og stöðu barnsins á hverjum tíma.

Upplýsingar um fyrirkomulag lokamats og þau hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið sem liggja því til grundvallar, á að birta á skýran hátt í námsáætlunum svo að allir aðilar viti hvað verði metið og hvernig. Nemendur þurfa líka að fá skýrar upplýsingar um tengsl lokamats á námstímabilinu við vitnisburð. Þeir verða til dæmis að vita hvort að þeir fái fleiri tækifæri til að sýna fram á hæfni sína á ákveðnum námsþáttum, hvort þeir geti endurtekið verkefni sem gilda til lokamats seinna á námsferli sínum og hvort lokamat námstímabilsins hafi mikið vægi þegar kemur að því að vitnisburður verður tekinn saman. Þegar lýsing á fyrirkomulagi námsmats liggur fyrir frá upphafi námstímabils hafa kennarar og nemendur betri og skýrari mynd af því sem stefnt er að og metið í lok tímabilsins.

Við lokamat eru notaðar fjölbreyttar matsaðferðir sem eiga að mæla hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur hafa náð á ákveðnum tímapunkti. Þetta geta verið skrifleg eða munnleg próf eða skipulegar athuganir og mat á fjölbreyttum afrakstri nemenda eins og ritunarverkefnum eða kynningum. Í námslotu um lýðræði getur kennari til dæmis sett upp matsviðmið og matskvarða fyrir þekkingu nemenda á stjórnskipulag sem er metin út frá svörum á prófi, hæfni nemenda í lýðræðislegri þátttöku sem er metið með þátttöku í málfundi og hugtakaskilning nemenda í tengslum við viðfangsefnið sem er metið út frá úrlausnum í hugtakakorti, ritgerð eða veggspjaldi. Þau matsviðmið sem notuð eru í lokamati þurfa að endurspegla og ná til þeirra þátta sem skilgreind voru í forgangsröðuðum hæfniviðmiðum og settum námsmarkmiðum á námstímabilinu.

Gera má ráð fyrir að ýmiss konar námsmat hafi átt sér stað í námsferli nemenda á hverju námstímabili sem hefur þann tilgang að meta stöðuna og ákveða næstu skref í kennslunni. Þetta geta verið ýmsar kannanir, drög að verkefnum og samtöl sem kennarinn leggur fyrir í leiðsagnarmati. Það er mikilvægt að aðgreina leiðsagnarmat og lokamat þegar upplýsingum um stöðu náms er miðlað til nemenda og forsjáraðila og gæta þess að þótt hæfni nemenda hafi verið takmörkuð fyrr á námsferlinum dragi það ekki niður það mat sem unnið er sem lokamat fyrir hvert námstímabil. Það er mikilvægt að gögnin sem lokamatið byggir á lýsi námslegri stöðu nemenda á þeim tímapunkti sem lokamatið er lagt fram en vísi ekki til vinnu þeirra langt aftur í tímann eða leiðsagnarmats sem notað var til að ákveða næstu skref í kennslunni.

Leiðsagnarmat fer fram í samtali nemenda og kennara en lokamat er formlegra og skráð í yfirlit um námsárangur nemenda. Ábyrgð kennara við gerð lokamats er mikil og þarf að gæta mjög vel að því að niðurstöður þess séu réttmætar og áreiðanlegar, það er, að matið sé í samræmi við hæfniviðmið og sett námsmarkmið á hverju námstímabili og að niðurstöður séu traustar.

Við birtingu á lokamati henta matstákn vel því þau geta einfaldað skráningu og miðlun upplýsinga um námslega stöðu nemenda. Ef matstákn eru notuð við lokamat námstímabila er mikilvægt að þau séu í samræmi við stefnu skólans. Æskilegt er að nota sömu matstákn við frágang á lokamati og notuð eru í vitnisburði skólans til að auðvelda öllum aðilum að skilja framsetninguna á sama hátt. Forsendur fyrir því að nemendur, kennarar og forsjáraðilar hafi góða og skýra yfirsýn um stöðu nemenda í náminu eru að allir aðilar hafi sameiginlegan skilning á matstáknum, matskvörðum og annarri framsetningu upplýsinga um stöðu barns í námsumsjónarkerfinu eða á öðrum þeim vettvangi sem notaður er til að miðla upplýsingum um námsmat til heimila.

Lokamat byggir á matsviðmiðum

Við skipulag námstímabila þurfa kennarar að huga vel að því hvaða matsviðmið þeir ætla að nota í lokamati. Matsviðmiðin þarf að skilgreina áður en kennsla hefst og skrá í námsáætlun, verkefnalýsingar og á annan hátt til að tryggja að þau séu sýnileg nemendum. Þegar kennari velur og skilgreinir matsviðmið er aðalatriðið að þau séu í skýru samhengi við þau hæfniviðmið, sem hefur verið forgangsraðað og þau námsmarkmið sem unnið er að á námstímabilinu.

Við skipulag lokamats geta kennarar sótt matsviðmið úr tveimur áttum:

  • Matsviðmið má sækja í forgangsröðuð hæfniviðmið og námsmarkmið sem skilgreind hafa verið og unnið er að á hverju námstímabili. Hæfniviðmið, í heilu lagi eða valin brot úr þeim, og námsmarkmið eru þá notuð eins og þau komu fyrir í skipulaginu en taka stöðu matsviðmiða í samhengi við lokamatið.
  • Matsviðmið má sækja í aðalnámskrá grunnskóla þar sem þau eru skilgreind fyrir hvert greinasvið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Kennarar geta afmarkað þá þætti úr matsviðmiðum aðalnámskrár sem tengjast þeim námsþáttum sem unnið var með á námstímabilinu og nýtt þau við vinnslu lokamats. Matsviðmið aðalnámskrár eru skilgreind á kvarða með bókstafseinkunnunum A, B og C sem getur flýtt fyrir kennurum sem vilja birta matsviðmið á slíkum kvarða við vinnslu á lokamati.

Matsviðmið eru ekki einkunnir heldur lýsingar á því sem nemendur eru færir um. Hægt er að tengja matstákn eða einkunnir við matsviðmið eins og gert er til dæmis í matsviðmiðum greinasviða fyrir 4., 7. og 10. bekk í Aðalnámskrá grunnskóla. Ekki er mælt með því að tengja matstákn við matsviðmiðin í daglegu starfi og leiðsagnarmati heldur aðeins þegar lokamat er dregið saman og vitnisburður gefinn út.

Hæfniviðmið og námsmarkmið fá stöðu matsviðmiða

Í mörgum skólum hefur skapast hefð fyrir því, bæði í samhengi leiðsagnarmats og lokamats, að nota hæfniviðmið eða námsmarkmið sem matsviðmið (samanber fyrri leiðina sem nefnd er í kaflanum Lokamat byggir á matsviðmiðum). Matsviðmið er þá oft sami textinn og settur var fram sem markmið náms. Munurinn á matsviðmiðinu og námsmarkmiðinu felst í því hvernig textinn er notaður frekar en að kennarar þurfi að skrifa sérstök matsviðmið til viðbótar þeim námsmarkmiðum sem hafa verið skilgreind.

Þegar kennarar nýta hæfniviðmið og námsmarkmið sem matsviðmið í lokamati er mikilvægt að þeir horfi líka til matsviðmiða Aðalnámskrár grunnskóla. Gæta þarf vel að því að þau matsviðmið sem notuð eru á ákveðnum námstímabilum hafi skýrt hlutverk sem vörður á leið nemenda að lokatakmarkinu. Allt námsmat þarf að streyma í sömu átt og þjóna markmiði þegar kemur að því að draga saman vitnisburð fyrir árgang, aldursstig og útskrift úr grunnskólanum.

Mikilvægt er að skólar miðli niðurstöðum lokamats til nemenda og forsjáraðila og æskilegt að það sé gert með tilvísun í matsviðmið. Í mörgum skólum er þetta gert með því að skrá upplýsingar í hæfnikort sem gefur yfirlit um stöðu nemenda gagnvart öllum hæfniviðmiðum sem unnið er með. Slík framsetning byggir í raun á þeirri aðferð að hæfniviðmið eru notuð sem matsviðmið. Ef allir aðilar; kennarar, nemendur og forsjáraðilar, eru sáttir við þá framsetningu er ekkert athugavert við að nýta hæfnikort á þennan hátt. En þetta fyrirkomulag skapar hættu á að birting upplýsinga um stöðu nemenda í námi verði mjög umfangsmikil og erfitt getur verið fyrir nemendur og forsjáraðila að hafa skýra yfirsýn um stöðuna hverju sinni. Mælt er með að skólar ígrundi vel hvernig upplýsingar um lokamat eru birtar til forsjáraðila og gæti þess að magn upplýsinga sé hæfilegt, ekki of mikið en heldur ekki of lítið.

Matsviðmið á hverju námstímabili eru yfirleitt færri og/eða umfangsminni en þau hæfniviðmið og námsmarkmið sem skilgreind hafa verið í námsáætlun því ekki er unnið lokamat varðandi stuðningshæfniviðmið. Það er mikilvægt að kennarar hafi það hugfast að í skólastarfi fer alltaf miklu meira fram en hægt er að gera grein fyrir í lokamati. Þess vegna er forgangsröðun hæfniviðmiða mikilvæg og hún þarf að gefa skýr skilaboð um hvaða námsþáttum fylgst er sérstaklega með og gerð grein fyrir með lokamati.

Matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla

Í Aðalnámskrá grunnskóla eru sett fram matsviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar fyrir hvert greinasvið til að vísa veginn í námsmati og samræma starf innan skólans og á milli ólíkra skóla. Matsviðmið aðalnámskrár tengjast flokkum (undirköflum) hæfniviðmiðanna á hverju greinasviði og mælt er með að skólar skipuleggi lokamat með hliðsjón af þessum flokkum. Flokkar greinasviðanna haldast óbreyttir milli aldursstiga grunnskólans og hver flokkur inniheldur afmarkaðan fjölda hæfniviðmiða. Í lýsingu skólanámskrár á notkun matsviðmiða er mikilvægt að sýna þessa flokka og útskýra hvaða vægi hver flokkur hefur þegar vitnisburður er dreginn saman.

Dæmi um flokka greinasviðs og hvernig þeir eiga sér samsvörun í matsviðmiðum greinasviðsins er skipting kafla 26 upplýsinga- og tæknimennt í upplýsinga- og miðlalæsi, sköpun og miðlun, stafræna borgaravitund og lausnaleit. Á mynd hér að neðan sést þetta skipulag:

Flokkar í upplýsinga- og tæknimenntMatsviðmið aðalnámskrár grunnskóla fyrir 7. bekk
Upplýsinga- og miðlalæsiNemandi getur nýtt sér skólasafn og gagnaveitur til upplýsinga- og þekkingaröflunar. Lagt mat á trúverðugleika og gæði upplýsinga. Unnið með heimildir og sett upp einfalda heimildaskrá.
Sköpun og miðlunNýtt sér margs konar tæknibúnað, hugbúnað og gögn á ábyrgan og skapandi hátt við verkefnavinnu.
Stafræn borgaravitundLýst reglum um hegðun á netinu og rætt um samband heilsu og vellíðunar við notkun stafrænnar tækni.
LausnaleitNýtt stafrænan stuðning í námi. Flokkað og varðveitt gögn á öruggan hátt. Leyst ýmis forritunarverkefni og þrautir.

Matsviðmið aðalnámskrár má búta í sundur og nota þar sem við á við lokamat á afmörkuðum matsþáttum. Í viðhenginu Forgangsröðun hæfniviðmiða (sjá neðar) eru gefin dæmi um hvernig hægt er að tengja matsviðmið aðalnámskrár við hæfniviðmiðin á hverju greinasviði.

Matsviðmiðum aðalnámskrár fyrir 4. og 7. bekk er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir skóla og eru sett fram til að styðja við og leiðbeina um námsmat við lok yngsta og miðstigs. Skólum er frjálst að nota þau við skipulag skólastarfs og til samræmingar við aðra skóla og mælt er með því að horft sé til þeirra þegar vitnisburður við lok árganga eða aldursstiga er unninn. Matsviðmið aðalnámskrár við lok 10. bekkjar ber öllum skólum að nota við frágang á vitnisburði við lok grunnskólans. Það er því mikilvægt að kennarar horfi stöðugt til þessara matsviðmiða alla skólagöngu nemenda og gæti þess að allt skipulag náms og kennslu, leiðsagnarmats og lokamats, varði leiðina að lokatakmarkinu og þeim vitnisburði sem draga þarf saman fyrir útskrift nemenda.

Það er afar mikilvægt að kennarar á öllum aldursstigum grunnskólans horfi til matsviðmiða aðalnámskrár við skipulag náms og kennslu í skólanámskrá. Námskráin er byggð þannig upp að flest hæfniviðmið og samsvarandi setningar í matsviðmiðunum eru endurtekin á öllum þremur aldursstigunum og dýpkuð með auknum þroska nemenda. Kennarar á yngsta stigi og miðstigi bera ábyrgð á að leggja grunninn að þeirri hæfni sem skólum ber skylda til að meta fyrir útskrift úr grunnskóla. Þegar allir kennarar skóla líta til matsviðmiða aðalnámskrár fyrir 4., 7. og 10. bekk sem stýrandi gagna við ákvarðanir um skipulag náms, kennslu og námsmats verður gott flæði í starfinu milli árganga og aldursstiga.

Forgangsröðun hæfniviðmiða og gerð námsmarkmiða eru lykilatriði í skýru skipulagi náms og kennslu í hverjum skóla þar sem hæfniviðmið 4. og 7. bekkjar eru vörður á leið nemenda í átt að hæfniviðmiðum 10. bekkjar. Mikilvægt er að horfa til matsviðmiða aðalnámskrár við forgangsröðun hæfniviðmiða og gæta þess að forgangsraða á skipulegan hátt þeim hæfniviðmiðum sem eiga skýra samsvörun í matsviðmiðunum. Matsviðmið aðalnámskrár geta á þennan hátt stutt skóla við að afmarka umfang námsmats því nokkur fjöldi hæfniviðmiða þarf í raun aldrei að fara í forgang heldur getur alltaf þjónað hlutverki stuðningshæfniviðmiða og þarf því ekki að taka til lokamats. Þó lokamat sé ekki nauðsynlegt er gert ráð fyrir því að námsmarkmið séu sett gagnvart stuðningshæfniviðmiðunum og þau rædd í leiðsagnarmati með nemendum.

Svigrúm fyrir endurmat

Nám er ferli sem á sér stað yfir lengri tíma og mikilvægt er að gefa nemendum tækifæri til endurmats þegar þeir hafa ekki sýnt fullnægjandi hæfni í fyrra lokamati (Erna Ingibjörg Pálsdóttir, 2025). Endurmat er stuðningur við nám nemenda og getur nýst til að hvetja þá áfram og til ábyrgðar í eigin námi. Mikilvægt er að þær upplýsingar sem skráðar eru sem lokamat í yfirliti um námslega stöðu nemenda endurspegli sem best þá hæfni sem nemandinn býr yfir hverju sinni.

Við endurmat er lögð áhersla á nám og hugarfar vaxtar með því að vega lokaeinkunn nemanda með tilliti til besta árangurs frekar en að safna stigum frá öllu námstímabilinu til að ná ákveðinni heildartölu eða bókstaf. Hæfnimiðað námsmat snýst ekki um hlutfallseinkunn heldur hvernig nemandi stendur sig miðað við matsviðmiðin. Í stað þess að gefa bara eina einkunn á stærðfræðiprófi metur kennari vinnu nemanda með hliðsjón af tilteknum matsviðmiðum til að nemandinn átti sig t.d. á að hann skarar fram úr í tugabrotum en þurfi að vinna betur í prósentureikningi eða hafi náð hæfni í hnitakerfinu en þurfi að bæta sig í jöfnum og ójöfnum. Með því að einblína á matsviðmið fremur en á einkunnir eiga skráningar að senda skilaboð um að vinnuframlag og að þrautseigja geti leitt til vaxtar og verið hvatning til að líta á áskoranir sem tækifæri til náms frekar en mistök.

Ekki er þörf á að nemendur fái endurmat á öllu sem þeir gera. Mestu skiptir að ákveða tímanlega hvort ástæða sé til endurmats og hvenær það er tímasett. Kennari þarf að taka tillit til óska nemenda um endurmat en meta líka á faglegum forsendum hvort tilefni sé til að bjóða upp á endurmat á ákveðinni hæfni.