Skipulag náms og kennslu
Námskráráherslur
Námsmat og vitnisburður
Forsiða
Námsmarkmið | Spurt og svaraðÍ Aðalnámskrá grunnskóla eru gefin út hæfniviðmið við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Skólum er ætlað að forgangsraða hæfniviðmiðum á árganga (sjá stuðningsefni sem mun birtast á www.adalnamskra.is) og setja við þau námsmarkmið. Í náms- eða kennsluáætlunum gera kennarar nákvæmari grein fyrir því hvaða námsmarkmið unnið er með á hverju námstímabili. Mikilvægt er að samhengi og flæði sé í námsmarkmiðum fyrir alla árganga skólans. MMS gefur út dæmi um námsmarkmið sem stuðningsefni við hæfniviðmið aðalnámskrár og hafa skólar val um að nýta þau við skipulagningu náms, kennslu og námsmats. Hægt er að nýta námsmarkmiðin eins og þau koma fyrir eða breyta þeim að vild og laga að áherslum skólans. Námsmarkmið eiga að vera í daglegri notkun í leiðsagnarmati og þau leggja grundvöll að þeim matsviðmiðum sem notuð eru í lokamati til að upplýsa um stöðu nemenda á tilteknum tímapunkti.
Skipulag námsmarkmiða í töflur þjónar tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi að brjóta viðfangsefni hæfniviðmiða niður í skýr og afmörkuð viðfangsefni og í öðru lagi að sýna hvernig hægt er að byggja upp aukna þekkingu, leikni og hæfni með auknum þroska nemenda. Hver lína í töflunum sýnir líklega framvindu á ákveðnu námsmarkmiði samhliða aukinni hæfni nemenda.
Hægt er að nýta dálkana 10 til að raða námsmarkmiðum á árganga. En það er mikilvægt að áhersla verði ekki á að dálkarnir 10 festi ákveðin námsmarkmið á ákveðna árganga því að í sumum námsgreinum er t.d. ekki unnið með öll hæfniviðmið á hverju ári.
Við sum hæfniviðmið geta verið fleiri eða færri námsmarkmið en sett eru fram í stuðningsefninu og sum námsmarkmið eflaust hægt að brjóta niður í mun fleiri þrep en sýnd eru í dæmunum á meðan önnur er óþarft eða ómögulegt að brjóta niður í tíu þrep.
Þegar námsmarkmið eru sett í færri en tíu þrep er það stundum endurtekið í nokkrum dálkum til að sýna að skólar hafi sveigjanleika í hvenær þeim er raðað á árganga. Undir sumum hæfniviðmiðum eru engin námsmarkmið á yngsta stigi á meðan önnur námsmarkmið ná ekki upp á mið- og/eða unglingastig. Þetta skipulag ræðst af eðli og inntaki hvers námsmarkmiðs.
Dæmi um námsmarkmið sem MMS gefur út sýna hvernig hægt er að kenna sama atriðið miðað við ólíka stöðu nemenda. Námsmarkmið í dálkunum 1.1 og 1.2 eru skrifuð með það í huga að nemendur séu að læra lestur og ritun og áhersla er því meiri á hlustun, talað mál og verklega vinnu. Námsmarkmið í dálkunum 3.2 og 3.3. eru skrifuð með það í huga að hægt sé að gera kröfu um fjölbreytta úrvinnslu og gagnrýna hugsun í glímu nemenda við ný viðfangsefni. Kennarar geta nýtt sér þessa uppbyggingu til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Til dæmis er hægt að nýta námsmarkmið af fyrri stigunum til að mæta þörfum nemenda sem eiga erfitt með læsi eða skilning á tilteknum námsþáttum. Einnig er hægt að nýta námsmarkmið af seinni stigunum til að mæta þörfum bráðgerra nemenda óháð því í hvaða árgangi þeir stunda námið.
Hæfniviðmið eru sett við lok 4., 7. og 10. bekkjar í Aðalnámskrá grunnskóla. Hæfniviðmið 10. bekkjar eru lokaáfangastaður nemenda í grunnskóla en hæfniviðmið við lok 4. og 7. bekkjar vörður á leið þeirra að hæfniviðmiðum 10. bekkjar. Skipuleggja þarf hvaða leið verður farin í námi og kennslu nemenda til að ná þeim vörðum sem settar hafa verið við lok 4. og 7. bekkjar til þess að nemendur svo útskrifist úr grunnskóla með þá hæfni sem lögð er fram í hæfniviðmiðum 10. bekkjar. Skólum er ætlað að setja námsmarkmið fyrir alla árganga sem segja til um hvað verði kennt hvenær svo að nemendur nái tiltekinni hæfni fyrir lok aldursstigs. Skólar hafa val um að nýta dæmi um námsmarkmið, sem MMS gefur út sem stuðningsefni við hæfniviðmið aðalnámskrár, við skipulagning náms, kennslu og námsmats. Hægt er að nýta þau eins og þau koma fyrir eða breyta þeim að vild og laga að áherslum skólans.
Námsmarkmið eru gefin út fyrir öll hæfniviðmið allra námsgreina og fyrir öll stig grunnskólans, yngsta stig, miðstig og unglingastig. Vinnsla er þó ekki hafin á dæmum um námsmarkmið fyrir íslensku sem annað tungumál og íslenskt táknmál.
Allt efnið sem birt er í stuðningsefni við hvert hæfniviðmið er unnið af starfandi grunnskólakennurum. Að vinnunni við skrif námsmarkmiða komu samtals um 60 grunnskólakennarar auk sérfræðinga sem sáu um yfirlestur og veittu góð ráð.
Skólum er ekki skylt að nýta dæmi um námsmarkmið sem MMS gefur út. Dæmi um námsmarkmið eru stuðningsefni við skipulagningu náms, kennslu og námsmats í hæfnimiðuðu skólastarfi (sjá stuðningsefni sem mun birtast á www.adalnamskra.is). Skólum er frjálst að nýta námsmarkmiðin sem MMS gefur út eins og þau koma fyrir eða breyta þeim að vild og aðlaga að áherslum skólans.
Vinna við námsmarkmið hófst eftir að endurskoðuð greinasvið aðalnámskrár grunnskóla voru birt í október 2024. Áætlað er að dæmi um námsmarkmið fyrir hæfniviðmið allra námsgreina hafi verið birt á www.adalnamskra.is í lok árs 2025. Vinnsla er þó ekki hafin á námsmarkmiðum fyrir íslensku sem annað tungumál og íslenskt táknmál.
Í þessari fyrstu útgáfu námsmarkmiða var ekki unnið að námsmarkmiðum við hæfniviðmið íslensku sem annars tungumáls. Vinna við þau er hafin í gegnum MEMM verkefnið og er áætlað að þau verði tilbúin fyrir skólaárið 2026-2027.
Í þessari fyrstu útgáfu námsmarkmiða var ekki unnið að námsmarkmiðum við hæfniviðmið íslensks táknmáls. Ekki hefur verið sett fram áætlun um þá vinnu.
Lykilhugtök: Í reitnum er bent á þau hugtök eða efnisatriði sem nemendur þurfa að kunna skil á til að ná tökum á hæfninni sem er til umfjöllunar.
Skýringar: Í reitnum eru gefnar skýringar til kennara á inntaki hæfniviðmiðsins og dæmi um viðfangsefni sem tengjast því.
Dæmi um kennsluaðferðir: Í reitnum eru tillögur að kennsluaðferðum sem henta í vinnu með hæfniviðmiðið sem er til umfjöllunar. Áhersla er lögð á að benda á dæmi um fjölbreyttar kennsluaðferðir sem ýta undir virkni nemenda í náminu.
Dæmi um viðmið í lykilhæfni: Í reitnum eru vísanir á yfirheiti hæfniviðmiða í lykilhæfnikaflanum sem tengjast því viðmiði sem fjallað er um á síðunni. Þessum tengingum er ætlað að auðvelda kennurum að flétta lykilhæfnina inn í allt daglegt starf. Í stuðningsefninu með lykilhæfnikaflanum er í þessum reit bent á tengd viðmið í hinum greinasviðunum.
Dæmin nýtast vel kennurum sem eru að stíga sín fyrstu skref í kennslu eða vinnu með ákveðin hæfniviðmið. Þau vísa til fjölbreyttra kennsluaðferða og viðfangsefna sem viðeigandi er að leggja fyrir nemendur og geta þannig stutt við kennara sem eru að stíga sín fyrstu skref í starfinu.
Reiturinn um lykilhugtök nýtist öllum kennurum til að afmarka umfang námsins og gæta samræmis við aðra skóla. Með því að draga lykilhugtök fram á þennan hátt er einnig áréttað mikilvægi þess að allir kennarar taki þátt í að efla orðaforða nemenda á fjölbreyttan hátt, bæði almennan námsorðaforða (2. þrep orðaforðans) og sértækan fagorðaforða (3. þrep orðaforðans).
Reiturinn um tengd viðmið í lykilhæfnikaflanum er til að árétta mikilvægi þess að lykilhæfni sé fléttað inn í allt daglegt starf, sbr. stuðningsefni um lykilhæfni á adalnamskra.is.
Dæmi um námsmarkmið eru fyrst og fremst fyrir skóla og kennara til þess að skipuleggja nám, kennslu og námsmat nemenda og til að leggja grunn að samfelldu námi og kennslu í skólanum.
Námsmarkmiðin eru sett fram sem leiðbeinandi upplýsingar um það sem þarf að kenna nemendum með ákveðna stígandi í huga. Þau sýna mikilvæg dæmi um hvað þarf að kenna til þess að nemendur hafi náð þeirri hæfni sem til er ætlast við lok 10. bekkjar.
Skólar geta og mega nota dæmi um námsmarkmið sem MMS gefur út og laga þau að áherslum skólans.
„Autt“ stendur í sumum reitum einfaldlega vegna þess að þar á ekkert efnislegt að standa. Þannig leikur enginn vafi á því að lagt sé til að reiturinn sé auður.
Dæmi um námsmarkmið eru sett við hvert hæfniviðmið í tíu dálka töflum sem merktar eru með töluliðum. Fyrri tölustafurinn merkir að námsmarkmiðið tilheyrir ákveðnu aldursstigi þ.e. 1 fyrir yngsta stig, 2 fyrir miðstig og 3 fyrir unglingastig. Seinni tölustafurinn merkir stígandina í námsmarkmiðinu á hverju stigi.
Dæmi: Námsmarkmið merkt 1.1 merkir námsmarkmið sem kennt er á yngsta stigi og er það fyrsta sem nemendur læra. 1.2 merkir þá námsmarkmið sem kennt er á yngsta stigi og kemur á eftir námsmarkmiðum merktum 1.1 í ákveðnum stíganda.
Inntak námsmarkmiða er mjög fjölbreytt og kallar ekki alltaf á að efnið sé brotið niður í tíu skref sem sýna stíganda í náminu. Sum hæfniviðmið eru þess eðlis að stöðugt er verið að vinna með þau, öll grunnskólaárin. Þetta eru til dæmis viðmið sem fjalla um sjálfstæði og samvinnu, fjölbreytta miðlun, læsi eða talnaskilning. Önnur hæfniviðmið eru tekin fyrir á afmörkuðum námstímabilum eða í þemum. Oft líður þá nokkuð langur tími milli þess að hæfnin sé til umræðu með nemendum og heildartími sem fer í vinnuna á grunnskólaárunum er mun minni. Þetta eru til dæmis viðmið á sviði efnafræði, Íslandssögu eða sundaðferða. Í þeim tilfellum er eðlilegt að námsmarkmiðin séu minni að umfangi og þá er sama markmiðið endurtekið í nokkrum reitum í dæmunum. Skólar hafa val um hvenær unnið er með námsþættina með nemendum og því eru námsmarkmið endurtekin frekar en að festa þau á ákveðnum stigum eða hafa auða reiti inn á milli. Endurtekningunni er ætlað að sýna að viðeigandi er að nýta námsmarkmiðið á breiðu tímabili á skólagöngu nemenda.
Við endurskoðun greinasviða aðalnámskrár grunnskóla kölluðu kennarar eftir því að betur yrði skilgreint hvað felist í hæfniviðmiðum hennar og hvernig best sé að kenna þau. MMS leggur til dæmi um námsmarkmið fyrir skólana til að styðja við skipulag, góðan stíganda og samfellu í námi nemenda í öllum grunnskólum. Með notkun skóla á dæmum um námsmarkmið stuðla þau að samfellu á milli árganga og stiga innan skólans, betra samræmis milli skóla og að allir nemendur fái ríkuleg námstækifæri á grunnskólagöngu sinni. Hönnun í kringum nýjan vef www.adalnamskra.is var hugsuð með það í huga að rúma námsmarkmið við öll hæfniviðmið. Námsmarkmið tengjast jafnframt inn í stuðningsefni um skipulag náms, kennslu og námsmat sem birt verður á www.adalnamskra.is.
Fyrir ábendingar eða til að fá upplýsingar má senda fyrirspurnir á postur@midstodmenntunar.is
Mikilvægt er að allir kynni sér innihald námsmarkmiða og velti fyrir sér hvort það sem MMS leggur fram sé það sem skólinn vill vinna með í sínu skipulagi náms og kennslu eða hvort talin sé ástæða til að breyta, bæta og færa til námsmarkmið og laga þau að áherslum skólans. Ganga þarf úr skugga um að flæði sé innan árgangs, á milli árganga og aldursstiga þegar námsmarkmið eru skipulögð. Komast þarf að samkomulagi um hvernig námsmarkmiðum verður raðað á námstímabil skólans.
Þegar starfsfólk hefur sett sig inn í stuðningsefnið er mikilvægt að gefa innleiðingu þess tíma. Viðeigandi er að stýrihópur innan skólans skilgreini tímalínu fyrir innleiðinguna og skipuleggi það samtal og þá teymisvinnu sem nauðsynleg er til að kennarar geti lagað námsmarkmiðin að eigin starfi og nýtt þau til að skapa skýra heildarmynd á skipulag náms og kennslu í skólanum.
Nám og kennsla í grunnskólum er umfangsmikið verkefni sem birtist skýrt þegar námsmarkmiðin eru sundurliðuð eins og gert er í dæmunum um námsmarkmið sem MMS gefur út. Sum námsmarkmið fá mikinn kennslutíma, eru síendurtekið á dagskrá og leggja grundvöll að mikilvægu námsmati á meðan önnur eru afgreidd í stökum verkefnum og ekki nýtt sem grundvöllur námsmats. Tíminn sem fer í vinnu með námsmarkmiðin og áherslur í námsmati eiga að taka mið af forgangsröðun hæfniviðmiða í skólanámskrá hvers skóla.
Í raun eru flestir skólar að kenna það efni sem vísað er til í námsmarkmiðum sem MMS gefur út. Dæmi um námsmarkmið hjálpa til við að búa til skýrari samfellu innan árganga, á milli árganga og á milli stiga í skólanum. Þannig verður skólastarfið mjög skilvirkt og góð samfella skapast í námi og kennslu allra námsgreina.
Námsmarkmið eru fyrst og fremst vinnutæki kennara í skólanum, til að skipuleggja nám, kennslu og námsmat og birta markmið náms fyrir nemendum. Gott skipulag á námsmarkmiðum er í raun sáttmáli um hvað verður kennt í hverjum árgangi og í hverri námsgrein svo að samfella skapist í námi og kennslu. Þau námsmarkmið sem valin hafa verið þurfa að vera sýnileg í skólastarfinu með birtingu á veggjum, í námsáætlunum, í fjölbreyttum verkefnum nemenda og daglegu samtali við þau.
Með góðri skráningu á skipulagi námsmarkmiða innan skóla geta kennarar sem taka við nýjum bekk áttað sig betur á hvaða grunn nemendur hafa þegar þau taka við bekknum. Jafnframt hafa kennarar þá upplýsingar um hvaða námsmarkmið liggja til grundvallar í þeim bekk sem þau eru að fara að kenna og geta skipulagt allt nám og kennslu út frá þeim.
Námsmarkmið eru einnig góður grunnur til að upplýsa foreldra um hverju unnið er að hverju sinni, t.d. í vikupóstum sem sendir eru heim.
Námsmarkmið eru fyrst og fremst vinnutæki kennara í skólanum, til að skipuleggja nám, kennslu og námsmat og birta markmið náms fyrir nemendum. Mikilvægt er að skipulag námsmarkmiða sé í skýrum tengslum við forgangsröðun hæfniviðmiða í skólanum og að allir kennarar hafi aðgang að námsmarkmiðunum sem kennarar hafa samþykkt að vinna samkvæmt.
Þau námsmarkmið sem valin hafa verið þurfa að vera sýnileg í skólastarfinu með birtingu á vegg, í námsáætlunum, fjölbreyttum verkefnum nemenda og daglegu samtali við nemendur.
Samkvæmt kafla 17 í aðalnámskrá grunnskóla ber skólum að setja námsmarkmið við forgangsröðuð hæfniviðmið og birta þau í skólanámskrá. Birting í skólanámskrá þýðir ekki endilega að öll námsmarkmið séu skrifuð þar inn heldur að vísað sé til þess hvar hægt sé að skoða forgangsröðun hæfniviðmiða og námsáætlanir eða verkefnalýsingar þar sem kennarar birta námsmarkmiðin til nemenda. Námsmarkmið þarf ekki að birta í námsumsjónarkerfum. En þar sem kennarar vinna náms- og kennsluáætlanir inni í slíkum kerfum er æskilegt að þeir hafi greiðan aðgang að námsmarkmiðunum innan þeirra. Í hverjum skóla þarf að taka ákvörðun um mikilvægi þess að birta námsmarkmiðin opinberlega. Huga þarf að tilgangi slíkrar upplýsingamiðlunar og hvort vinnutíma kennara sé vel varið í þá miðlun.
Hæfniviðmið lýsa inntaki náms og eiga að vísa veginn í skipulagi skólastarfs. Þau eru víð og umfangsmikil og því er mikilvægt að setja námsmarkmið við þau sem lýsa betur hvert nemendur eru að stefna í verkefnavinnu á hverju námstímabili. Námsmarkmið eru skýrar lýsingar á þeirri þekkingu, leikni eða hæfni sem nemendur eiga að stefna að í ákveðnu verkefni eða á námstímabili. Námsmarkmið eiga að varða þá leið sem farin er í námi svo nemendum sé ljóst hvaða væntingar gerðar eru til þeirra og á hvaða forsendum námsmat mun fara fram.
Námsmarkmið eru mikilvægur hlekkur milli hæfniviðmiða aðalnámskrár og námsmats nemenda. Vel skilgreind og skýr námsmarkmið setja skýrt niður fyrir kennurum hvað þeir þurfa að kenna og fyrir nemendum hvað þeir eiga að læra. Slík sýn auðveldar kennurum að skipuleggja kennsluna, sjá hvað eru viðeigandi leiðir í námsmati og leggja grundvöll að þeim matsviðmiðum sem notuð eru í lokamati til að upplýsa um stöðu nemenda á tilteknum tímapunkti.
Skipulagið á dæmum MMS um námsmarkmið er sett upp til að sýna mögulega framvindu náms. Dæmin eru hlaðborð sem kennarar geta leitað í við skipulag kennslu allt eftir áherslum hvers skóla. Ekki er ætlast til að allir skólar noti öll dæmin um námsmarkmið eða að þau séu kennd í öllum árgöngum. Mikilvægast er að skólar og kennarar skipuleggi samfellu í námi og kennslu samkvæmt sínum áherslum, skilgreini hvaða námsmarkmið sett eru við hvert hæfniviðmið aðalnámskrár og raði þeim á árganga og námstímabil. Þau námsmarkmið sem valin hafa verið þurfa að vera sýnileg í skólastarfinu með birtingu í náms- og kennsluáætlunum, verkefnalýsingum og daglegu samtali við nemendur.
Dæmin í stuðningsefninu geta stutt kennara við einstaklingsmiðun námsins. Það er ekkert því til fyrirstöðu að börn á yngsta stigi fái verkefni sem eru skipulögð út frá hæfniviðmiðum og námsmarkmiðum eldri aldursstiganna eða að börn á eldri stigunum vinni að námsmarkmiðum sem skráð eru undir fyrsta stigi. Val á námsmarkmiðum ætti að mæta þörfum nemenda hverju sinni því í grunnskólanum á að vinna með öllum nemendum eins og hæfir hverjum og einum.
Hæfniviðmið og námsmarkmið sem sett eru við þau eru grundvöllur í skipulagi náms og kennslu. Námsmarkmið eru skýrar lýsingar á þeirri þekkingu, leikni eða hæfni sem nemendur eiga að stefna að í ákveðnu verkefni eða námstímabili. Námsmarkmið eiga að varða þá leið sem farin er í námi svo kennarar viti hvað þeir þurfa að kenna og meta, nemendum sé ljóst hvaða væntingar gerðar eru til þeirra og á hvaða forsendum námsmat mun fara fram.
Námsmarkmið eru mikilvægur hlekkur milli hæfniviðmiða aðalnámskrár og námsmats nemenda. Vel skilgreind og skýr námsmarkmið setja skýrt niður fyrir kennurum hvað þeir þurfa að kenna og nemendum hvað þeir eiga að læra. Slík sýn auðveldar kennurum að skipuleggja kennsluna og ræða um markmið náms við nemendur. Námsmarkmið eru í daglegri notkun í leiðsagnarmati og þau leggja grundvöll að þeim matsviðmiðum sem notuð eru í lokamati til að upplýsa um stöðu nemenda á tilteknum tímapunkti.
Oft eru námsmarkmið notuð sem matsviðmið. Stundum eru þau skrifuð inn í nokkurra þrepa matskvarða sem sýna stig þess árangurs sem mögulegt er að nemendur nái. Stundum eru þau notuð án ítarlegri kvarða og þá til að meta hvort nemandi hafi náð markmiðinu eða ekki.
Í þessari fyrstu útgáfu eru ekki birtar tengingar milli námsmarkmiða og námsefnis.
Vinna þessu tengd verður kynnt ef og þegar hún verður gefin út.
Ef tekin er ákvörðun um að nýta dæmin um námsmarkmið er mikilvægt, svo að góð samfella skapist í námi og kennslu, að allir vinni með og samkvæmt námsmarkmiðunum.
Niðurstöður menntarannsókna sýna að ástæða er til að hvetja alla kennara til að byggja kennsluna sína á skýrum markmiðum og beita aðferðum leiðsagnarmats í öllu daglegu starfi.
Dæmi um námsmarkmið byggja ekki á bókum eða námsefni sem MMS gefur út. Víða er þó samræmi þarna á milli þar sem bæði námsmarkmiðin og námsefni eru sett fram sem tæki til að kenna þá hæfni sem hæfniviðmið aðalnámskrár kveða á um.