Námskráráherslur
Stuðningsefni og upplýsingar
Skipulag náms og kennslu
Forsiða
Lykilhugtök | Hæfniviðmið, námsmarkmið, matsviðmið
Í Aðalnámskrá grunnskóla eru markmið náms skilgreind í hæfniviðmiðum og matsviðmiðum. Samkvæmt námskránni eiga kennarar og skólar að skilgreina námsmarkmið til að lýsa nánar í hverju nám og kennsla felst. Námsmarkmið eiga að taka mið af stefnu og sérkennum hvers skóla og í þeim birtast lýsingar á ólíku fyrirkomulagi kennslu.
Hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið fjalla öll um sömu atriðin, þá námsþætti sem nemendur fást við. Þau eru nátengd og oft orðuð á sama eða svipaðan hátt. Við skipulag náms og kennslu þarf að horfa á þau sem heild því í raun getur ekkert þeirra án hinna tveggja verið. Á sama tíma er mikilvægt að vera meðvituð um hvernig hver birtingarmynd er nýtt í ólíkum tilgangi og í ólíku samhengi:
Í hæfniviðmiðum greinasviða Aðalnámskrár grunnskóla er skilgreind sú hæfni sem leggur grunn að heildstæðri almennri menntun. Í þeim birtist sýn samfélagsins á hvaða þekkingu og leikni sé mikilvægt fyrir einstaklinga að hafa tileinkað sér og búa yfir við lok grunnskóla. Samkvæmt þessari sýn á almenn menntun að miða að því að efla sjálfsskilning einstaklingsins, námsvitund (e. meta-cognition) og hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi.
Hæfniviðmið aðalnámskrár eru útfærð innan hvers námssviðs og námsgreina og lýsa þau þeirri hæfni sem stefnt er á að nemendur geti sýnt við lok hvers aldursstigs grunnskólans þ.e. við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Skipulag hæfniviðmiða í aðalnámskrá setur fram vegvísa sem varða leiðina frá upphafi til loka grunnskóla. Skólastarf þarf að taka mið af því sem stefnt er að og skapa aðstæður svo nemendur geti öðlast hæfnina þannig að þau búi yfir henni að námi loknu.
Í Aðalnámskrá grunnskóla er hvert hæfniviðmið merkt með yfirheiti til að sýna inntak þess í fljótu bragði og hvernig gert er ráð fyrir að hæfni nemenda þróist milli aldursstiga. Auk þess að veita kennurum skýrari yfirsýn um inntak hæfniviðmiða geta yfirheitin nýst til að útskýra fyrir nemendum og forsjáraðilum megináherslur náms og kennslu.
Dæmi um yfirheiti hæfniviðmiðs í lykilhæfni:

Í hverri námsgrein og greinasviði Aðalnámskrár grunnskóla er hæfniviðmiðum skipt í nokkra flokka og þau skilgreind fyrir 4., 7. og 10. bekk. Sem dæmi eru hæfniviðmið í erlendum tungumálum sett fram í sex flokkum, þ.e. hlustun og áhorf, lestur og lesskilningur, samskipti, frásögn, ritun og menningarlæsi. Þó að hæfniviðmiðin séu flokkuð á þennan hátt er mikilvægt að líta á þau sem samfellda heild. Gert er ráð fyrir að hæfniviðmið og flokkar þeirra fléttist saman í námi og kennslu auk þess sem hvatt er til samþættingar námsgreina. Í öllu skipulagi náms og kennslu er mikilvægt að horfa til hæfniviðmiða í lykilhæfnikaflanum og nýta þau til að þjálfa vönduð vinnubrögð nemenda í fjölbreyttri verkefnavinnu.
Námsmarkmið eru sett við hæfniviðmið til að lýsa því sem nemendur þurfa að vita, geta og gera til að ná þeirri hæfni sem að er stefnt í ákveðnu verkefni eða námstímabili. Námsmarkmið segja á skýran hátt hvað nemendur eiga að læra og kennarar eiga að kenna.
Námsmarkmið eru skráð í verkefnalýsingar og önnur þau skjöl sem notuð eru til að lýsa inntaki náms og kennslu, kennslustunda og námsmats. Þau eiga að vera afmörkuð og skýr og hæfa þroska nemenda á hverju aldursstigi. Þau verða líka að vera raunhæf með tilliti til tímans sem er til reiðu og aðstæðna sem eru fyrir hendi.
Þrjú megin einkenni námsmarkmiða eru (Brookhart og Nitko, 2019):
Á vef aðalnámskrár eru birt dæmi um námsmarkmið við öll hæfniviðmið. Dæmin sýna mögulegar leiðir sem hægt er að fara til að setja upp samfellu í námi og kennslu. Skólum er frjálst að nýta þessi dæmi, aðlaga þau eða skrifa eigin námsmarkmið.
Námsmarkmið eru mikilvægur hlekkur milli hæfniviðmiða aðalnámskrár og þeirra matsviðmiða sem notuð eru við lokamat nemenda. Vel skilgreind og skýr námsmarkmið birta nauðsynlega túlkun á hæfniviðmiðum og setja skýrt niður fyrir kennurum hvað þeir þurfa að kenna og fyrir nemendum hvað þeir eiga að læra. Slík túlkun auðveldar kennurum að skipuleggja kennsluna, sjá hvað eru viðeigandi leiðir í námsmati og leggja grundvöll að þeim matsviðmiðum sem notuð eru í lokamati til að upplýsa um stöðu nemenda á tilteknum tímapunkti.
Aðalnámskrá grunnskóla kveður á um að kennarar skuli leggja matsviðmið til grundvallar við mat á stöðu nemenda. Vel skilgreind matsviðmið gefa mikilvægar upplýsingar um þá þætti sem námsmat verður byggt á. Þau geta stutt við markvissa endurgjöf og leiðsögn til nemenda í námsferlinu og eru grundvöllur fyrir ákvörðunum um lokamat og vitnisburð.
Gert er ráð fyrir að í hæfnimiðuðu skólastarfi byggi allt námsmat á viðmiðum. Í lokamati og vitnisburði verða matsviðmið að vera í skýrum tengslum við forgangsröðuð hæfniviðmið og sett námsmarkmið. Hugtakið matsviðmið er því mjög vítt og vísar til viðmiða sem notuð eru í fjölbreyttu námsmati og við vinnslu vitnisburðar.
Hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið eru oft samhljóða og stundum eru hæfniviðmið og námsmarkmið notuð sem matsviðmið. Við vinnslu vitnisburðar á að nota matsviðmiðin sem skilgreind eru í Aðalnámskrá grunnskóla eða útfærslu skóla á þeim viðmiðum fyrir ólíka nemendahópa. Þegar kennarar skilgreina hvaða viðmið þeir nota í lokamati geta þeir valið hvort þeir nota hæfniviðmið eða námsmarkmið námstímabilsins sem matsviðmið eða nýta matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla að hluta eða öllu leyti, allt eftir eðli og umfangi þeirra matsverkefna sem lögð eru fyrir nemendur og tengslum þeirra við vitnisburð.
Matsviðmið eru notuð í lokamati og vitnisburði.
| Lokamat | Vitnisburður |
|---|---|
| Lokamat er niðurstaða í afmörkuðum matsverkefnum sem kennarar leggja fyrir við lok námstímabila til að gefa upplýsingar um námslega stöðu nemenda á þeim tímapunkti. | Vitnisburður sýnir heildarstöðu nemenda á hverju greinasviði við lok skólaárs, aldursstiga eða á öðrum tímapunktum sem skóli ákveður. |
| Lokamat þarf að vera fjölbreytt og í skýrum tengslum við forgangsröðuð hæfniviðmið hverju sinni. | Þegar vitnisburður er unninn þarf að liggja fyrir fjölbreytt lokamat sem gefur upplýsingar um hæfni nemenda í öllum flokkum hvers greinasviðs. |
| Matsviðmið sem notuð eru í lokamati koma úr ýmsum áttum: | Vitnisburður byggir á matsviðmiðum Aðalnámskrár grunnskóla. |
| - Forgangsröðuð hæfniviðmið (í heilu lagi eða brot úr þeim). | Matsviðmið eru birt fyrir hvert greinasvið og lýsa þeirri hæfni sem nemendur eiga að hafa náð fyrir lok 4., 7. og 10. bekkjar. Skólar útfæra matsviðmið aðalnámskrár fyrir aðra árganga. |
| - Námsmarkmið (sem tengjast forgangsröðuðum hæfniviðmiðum á námstímabilinu). | |
| - Matsviðmið Aðalnámskrár grunnskóla, í heilu lagi eða brot úr þeim eftir umfangi matsverkefna. | |
| Kennarar velja matsviðmið sem beina athygli að aðalatriðum náms og afmarka umfang lokamats í námi og kennslu. |
Hæfniviðmið, námsmarkmið og matsviðmið fjalla öll um sömu atriðin, þá námsþætti sem nemendur fást við. Þau eru nátengd og við skipulag náms og kennslu þarf að horfa á þau sem heild því í raun getur ekkert þeirra án hinna tveggja verið.
Í mörgum tilvikum er orðalag hæfniviðmiða, námsmarkmiða og matsviðmiða mjög líkt og jafnvel alveg eins. Á næstu mynd má sjá dæmi úr kafla 19. íslensku um hvernig sama setningin getur gegnt hlutverki hæfniviðmiðs, námsmarkmiðs og matsviðmiðs:
| Hæfniviðmið: Við lok 7. bekkjar getur nemandi … | Námsmarkmið 2.3: Nemandi getur ... | Matsviðmið B við lok 7. bekkjar: Nemandi getur ... |
|---|---|---|
| flutt mál sitt skýrt … | flutt mál sitt skýrt … | flutt mál sitt skýrt … |
Í dæmi á eftirfarandi mynd má sjá hvernig tengsl hæfniviðmiða, námsmarkmiða og matsviðmiða birtast í aðeins víðara samhengi. Myndin sýnir hvernig námsmarkmið eru sett við hæfniviðmið úr kafla Aðalnámskrár grunnskóla í upplýsinga- og tæknimennt fyrir 10. bekk og matsviðmið aðalnámskrár sem tengist þessum settu námsmarkmiðum.
| Hæfniviðmið úr aðalnámskrá | Námsmarkmið sett af kennara | Matsviðmið úr aðalnámskrá |
|---|---|---|
| Við lok 10. bekkjar getur nemandi unnið með fjölbreyttar heimildir og metið áreðianleika þeirra, virt höfundarrétt og almennt siðferði í heimildavinnu og sett fram heimildaskrá samkvæmt viðurkenndum aðferðum. | Nemandi getur valið og notað miðla og texta í samræi við þær reglur sem gilda um höfundarrétt hverju sinni. | Við lok 10. bekkjar getur nemandi unnið með heimildir eftir viðurkenndum aðferðum. |
| Nemandi getur valið viðeigandi og áreiðanlegar heimildir í tengslum við rannsóknarvinnu. | ||
| Nemandi getur skrifað samfelldan texta unninn út frá fjölbreyttum heimildum. | ||
| Nemandi getur sett upp heimildaskrá skv. APA staðli. |