Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Námskráráherslur

Stuðningsefni og upplýsingar

Skipulag náms og kennslu

Forsiða

Frá aðalnámskrá til námsáætlana

Frá aðalnámskrá til námsáætlana

Hugtakið námskrá er vítt og á við um alla framkvæmd skólastarfs. Hugtakið vísar til allra skjala sem lýsa markmiðum og framkvæmd skólastarfs.

Aðalnámskrá

Á Íslandi eru stefna og meginmarkmið skólastarfs sett fram í Aðalnámskrá sem er útfærsla stjórnvalda á lögum um grunnskóla (nr. 91/2008). Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið, námsframboð og námskröfur, leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærslu á þeirri menntastefnu sem felst í lögunum. Aðalnámskrá er ætluð stjórnendum, kennurum og öðru starfsfólki skóla og markar starfsramma þeirra við skipulagningu og framkvæmd skólastarfs. Einnig veitir aðalnámskrá nemendum, foreldrum og öðrum hagsmunaaðilum upplýsingar um helstu viðmið sem starfsemi skóla byggir á, heildarsýn og tilgang skólastarfs.

Aðalnámskrá grunnskóla er annars vegar sett fram í almennum hluta og hins vegar í greinasviðum.

Almenni hlutinn leggur grunn að hlutverki skóla, fagmennsku kennara og sýn á almenna menntun. Þar koma meðal annars fram stefnumótandi áhersluþættir svo sem grunnþættir menntunar, megináherslur í námi og kennslu, inntaki og skipulagi náms, tilhögun námsmats og mats á skólastarfi.

Greinasviðin setja fram nánari umfjöllun um þá hæfni sem stefnt er að með skólastarfinu innan ákveðins námssviðs eða námsgreinar. Í Aðalnámskrá grunnskóla eru sett fram þau hæfniviðmið sem skólar eiga að leggja til grundvallar í skipulagi náms og kennslu. Þar eru jafnframt sett fram matsviðmið við lok 10., 7. og 4. bekkjar og lýsa þau þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur eiga að ná tökum á fyrir lok hvers aldursstigs í grunnskólanum.

Lykilhæfni tengist öllum námssviðum og setur fram þá hæfni sem ætlað er að stuðla að alhliða þroska nemenda. Greinasviðin og lykilhæfnin eru sett fram á samræmdan hátt. Í inngangskafla er fjallað um menntagildi og megintilgang greinarinnar eða sviðsins. Í öðrum undirköflum eru sett fram hæfniviðmið og matsviðmið sem stefna á að við lok 4., 7. og 10. bekkjar. Ekki eru sett fram matsviðmið fyrir lykilhæfni en gert ráð fyrir að hver skóli geri grein fyrir því í skólanámskrá hvernig lykilhæfni er fléttað inn í daglegt starf og metin.

Skólanámskrá | Lýsingar á stefnu og starfi skóla

Hver skóli skal birta skólastefnu sína með tvennum hætti, í skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri ber ábyrgð á gerð og birtingu skólastefnu og að virkja starfsfólk í þróun hennar. Kennarar bera ábyrgð á að skólastarf fylgi þeirri stefnu og þeim viðmiðum sem birt eru í aðalnámskrá og útfærð nánar í skólastefnu.

Hver skóli setur sínar áherslur sem ættu að taka mið af staðháttum og menningu í nærumhverfi skólans þannig að daglegt starf höfði til nemenda og þeir fái fjölbreytt tækifæri til náms. Kennarar þurfa þó stöðugt að líta til aðalnámskrár og gæta þess að starf skólans sé í samræmi við þau megingildi og markmið sem þar eru sett fram fyrir alla skóla á Íslandi.

Þegar skólanámskrá er skýr og allt kemur fram þar um framkvæmd náms, kennslu og námsmats, er hún mikilvægur hlekkur í upplýsingagjöf til forsjáraðila og ytri aðila. Kennarar geta þá vísað til skólanámskrár í vikupóstum og tölvupóstum til heimila í stað þess að telja þar upp þau viðfangsefni sem eru í gangi hverju sinni.

Skólanámskrá

Skólanámskrá hvers skóla er nánari útfærsla á ákvæðum aðalnámskrár. Þar aðlaga skólar opinber fyrirmæli að sérstöðu skólans og staðbundnum aðstæðum, tilgreina þau gildi og áherslur sem skólinn leggur til grundvallar starfi sínu auk þess sem þeir gera grein fyrir því hvernig skólinn framkvæmir nám, kennslu og námsmat. Skólanámskrá verður að vera lifandi plagg sem er uppfært reglulega. Þar á m.a. að birta stefnu hans, útfærslu skólans á grunnþáttum menntunar, forgangsröðun hæfniviðmiða á árganga, upplýsingar um fyrirkomulag námsmats, birtingu vitnisburðar og samstarf við heimili og áætlanir um innra mat og ýmsa þætti sem tengjast starfi skólans og öryggi nemenda og starfsfólks.

Forgangsröðun hæfniviðmiða er verklag sem mælt er með að kennarar og skólastjórnendur tileinki sér og vinni í sameiningu fyrir hverja námsgrein. Þannig verða til gögn sem sýna skýrt hvernig hæfniviðmiðum er forgangsraðað á árganga og hver þeirra eru tengd matsviðmiðum. Þegar forgangsröðun hæfniviðmiða er birt í töflu eða sambærilegum skjölum gefur hún skýrt yfirlit um áherslur í hverjum árgangi og framvindu náms milli árganga og aldursstiga. Nánar má lesa um verklag við forgangsröðun hæfniviðmiða á síðunni Forgangsröðun hæfniviðmiða lýsir kennsluskipulagi hvers skóla.

Starfsáætlun

Starfsáætlun birtir upplýsingar varðandi starf skólans sem eru breytilegar frá ári til árs. Þetta eru til dæmis upplýsingar um starfsfólk og skipurit skóla, starfandi nefndir, skóladagatal, starfstíma skóla, námsáætlanir, stundaskrár, stoðþjónustu, val nemenda og félagslíf, viðfangsefni innra mats, símenntunaráætlun starfsfólks og fleira sem varðar starfsemi skólans ár hvert.

Námsáætlanir sem birta á, samhliða starfsáætlun skóla, eru kennslufræðilegt skipulag fyrir kennara og nemendur og leiðarvísir um vinnuna á hverju námstímabili. Námsáætlun á að skipuleggja út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár fyrir hvert greinasvið, námsgrein eða námshóp. Í námsáætlun á að tilgreina hvaða hæfniviðmið skal vinna með á hverju námstímabili og hvaða námsmarkmið eru notuð til þess að skipuleggja kennslu út frá og til að upplýsa nemendur um markmið náms. Einnig þarf að lýsa hvernig námsmarkmiðin tengjast þeim matsviðmiðum sem notuð eru á námstímabilinu og hvernig leiðsagnarmat og lokamat verður framkvæmt. Í námsáætlunum þarf að útskýra hvaða kennsluaðferðir verða notaðar og hvernig námsaðlögun muni fara fram. Að lokum þarf að tilgreina hvaða námsgögn verði notuð. Áherslu þarf að leggja á að kennsluhættir séu leiðbeinandi og fjölbreyttir þ.e. að þeir einkennist af virkni nemenda, krefjandi spurningum, samtali, tilraunum, lausnamiðaðri verkefnavinnu, verklegum æfingum og aukinni þekkingu nemenda á þeim hugar- og reynsluheimi sem þau lifa í.