Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Curriculum icon
Leikskóli

Almennur hluti

Forsiða

Leikskóli

Mat á leikskólastarfi
Kafli 14

Mat á leikskólastarfi

Mat á leikskólastarfi hefur þann tilgang að tryggja að réttindi leikskólabarna séu virt og þau fái þá menntun og þjónustu sem þeim ber samkvæmt lögum um leikskóla. Mat á skólastarfi er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir og er hér kallað innra mat. Hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila og er nefnt ytra mat.

14.1

Innra mat í leikskóla

Innra mati á leikskólastarfi er einnig ætlað að veita upplýsingar um starfshætti leikskólans, stuðla að umbótum og auknum gæðum og vera liður í þróun skólastarfs í leikskólum. Með kerfisbundnu mati er greint hvað gengur vel og hvað miður og síðan teknar ákvarðanir um umbætur á grundvelli niðurstaðna.

Mat á starfi leikskólans á að taka mið af þeim markmiðum og gildum sem fram koma í lögum, reglugerðum og aðalnámskrá leikskóla. Jafnframt tekur innra mat mið af starfsaðferðum og sérstöðu hvers leikskóla sem fram kemur í skólanámskrá. Innra mat á að vera samofið daglegu starfi leikskólans, efla þekkingu, hæfni og ígrundun á starfinu, auka vitund starfsfólks um ábyrgð þess á starfsemi leikskólans og vera liður í foreldrasamvinnu.

Lýðræðisleg vinnubrögð við innra mat, þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra sem koma að leikskólastarfinu, stuðla að auknum gæðum í starfinu. Þar eru leikskólakennarar, annað starfsfólk, foreldrar og börn mikilvægustu þátttakendurnir. Þessir aðilar þurfa að fá tækifæri til að velta fyrir sér leikskólastarfinu og ræða sín á milli á jafnréttisgrundvelli.

Hver leikskóli mótar viðmið fyrir sína starfsemi, setur þau fram í skólanámskrá og þróar matsaðferðir sem henta starfsháttum skólans. Mikilvægt er að fara mismunandi leiðir við gagnaöflun og styðjast við fjölbreyttar matsaðferðir sem taka mið af starfsaðferðum leikskólans, fjölbreytileika í foreldrahópnum og ólíkum tjáningarmáta barna.

Leikskólakennarar eru í lykilhlutverki við skipulagningu og framkvæmd innra mats. Leikskóla­stjóri ber hins vegar ábyrgð á framkvæmd innra mats í leikskólanum og fylgir eftir umbótum sem byggðar eru á niðurstöðum þess. Niðurstöður innra mats á leikskólastarfinu ásamt umbótaáætlun eiga að vera aðgengileg. Mikilvægt er að nefnd sem fer með málefni leikskólans í umboði sveitarstjórnar fylgi því eftir að niðurstöður innra mats stuðli að auknum gæðum skólastarfs.

14.2

Ytra mat í leikskóla

Sú nefnd sem fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar skal hafa eftirlit með því að starfsemi leikskóla samræmist leikskólalögum, reglugerðum og aðalnámskrá leikskóla. Þetta á bæði við um þá leikskóla sem reknir eru af sveitarfélaginu og þá sem reknir eru af öðrum aðilum. Nefndin ber ábyrgð á að skólastarf sé metið með hliðsjón af aðstæðum og sérstöðu hvers leikskóla og að skólinn meti innra starf sitt með markvissum hætti. Við ytra mat má styðjast við margs konar upplýsingar t.d. um innra mat, mat á skólanámskrá og starfsáætlun skóla, framkvæmd skólastefnu sveitarfélagsins, tölulegar upplýsingar og önnur gögn eftir því sem við á.

Sveitarstjórn ber að tryggja að upplýsingum um skólastarf sé miðlað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, starfsfólks skóla og foreldra. Niðurstöðum úttekta og kannana skal fylgt eftir með markvissum hætti en eftirfylgni tekur mið af viðfangsefni og niðurstöðum.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög um leikskóla, reglugerðir og aðalnámskrá kveða á um. Reglubundið ytra mat ráðuneytisins felst í úttektum, könnunum og rannsóknum ásamt almennri öflun, greiningu og miðlun upplýsinga. Ráðuneytið gerir áætlun til þriggja ára um ytra mat, kannanir og úttektir, sem miða að því að veita upplýsingar um starfsemi leikskóla. Ytra mat ráðuneytisins getur m.a. falist í úttektum á skólastarfi í heild eða einstökum þáttum þess, stofnanaúttektum, úttektum á ákveðnum þáttum eða innra mati. Einnig getur ytra matið falist í greiningu á niðurstöðum mats sveitarfélaga. Niðurstöðum ber að fylgja eftir og tekur eftirfylgni ráðuneytisins mið af niðurstöðum hverju sinni. Niðurstöður allra kannana og úttekta eru birtar á vef ráðuneytisins.