Almennur hluti
Í kafla tvö eru útskýrðir sex grunnþættir menntunar sem endurspeglast eiga í skólastarfi framhaldsskóla. Grunnþættirnir eiga að vera sýnilegir í námi og kennslu nemenda, starfsháttum, skipulagi og þróunaráætlunum skóla svo og tengslum hans við samfélag sitt. Framhaldsskólar skulu í skólanámskrá gera grein fyrir hvernig grunnþáttum er sinnt og leggja mat á sýnileika þeirra og innleiðingu í innra mati skóla.
Lykilhæfni er ætlað að tengja grunnþættina við markmið um hæfni nemenda að loknu námi. Lykilhæfnin snýr að nemandanum sjálfum og er þannig nemendamiðuð útfærsla á áherslum grunnþátta. Lykilhæfnin er nýtt við skipulagningu námsbrauta, gerð áfangalýsinga auk þess sem horft er til hennar við námsmat og umsögn um nemendur.
Ætlast er til að lykilhæfni og grunnþættir fléttist saman og myndi burðarstoð í öllu starfi framhaldsskóla, starfsumhverfi og skólabrag sem og námi og kennslu allra námsáfanga. Við umsókn um staðfestingu námsbrautarlýsinga er skólum skylt að útskýra hvar og hvernig grunnþáttum og lykilhæfni er sinnt.

Á myndinni hér til hliðar er tilraun gerð til að sýna tengsl grunnþátta og lykilhæfni.
Grunnþættirnir skulu endurspeglast í öllu skólastarfi en lykilhæfnin tengir grunnþættina við kröfu um hæfni nemenda.
Lykilhæfnin tekur til níu sviða. Hér að neðan er hverju sviði lýst og tekin almenn dæmi um viðmið. Lykilhæfnin snýr bæði að almennri hæfni og sértækri. Sértæk dæmi um heilbrigði gætu snúist um vinnuvernd og öryggismál á þeim starfsvettvangi sem nemandinn stefnir á. Sértæk dæmi um mannréttindi og lýðræði gætu snúist um lagaumhverfi og vinnusiðfræði og sértæk dæmi í menntun til sjálfbærni gætu snúist um sjálfbæran vinnustað.
Námshæfni felur í sér sjálfsþekkingu, þ.e. að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Námhæfni beinist að fróðleiksfýsn, trú á eigin getu og hæfileika til að beita þekkingu sinni, leikni og hæfni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt. Hún tengist einnig getu til að tengja þekkingu og leikni við frekara nám og störf.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Góð heilsa er skilgreind sem líkamlegt, andlegt og félagslegt heilbrigði. Sérhver nemandi þarf að gera sér grein fyrir að hann ber ábyrgð á sjálfum sér og félagslegu umhverfi sínu. Ábyrgðin snertir líkamlegt heilbrigði en til að stuðla að góðri heilsu og almennri velferð þarf að leggja rækt við hollar lífsvenjur, hreyfingu og heilbrigða lífshætti. Ábyrgðin tengist einnig andlegu heilbrigði t.d. hvað varðar ábyrga afstöðu til eineltis og annars ofbeldis. Félagslegt heilbrigði felur í sér jákvæða og heilbrigða samskiptahætti og félagslega virkni.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Sköpun felst í að móta viðfangsefni og miðla þeim, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpunarferlið stuðlar að frumkvæði, ígrundun og gagnrýninni hugsun og er því ekki síður mikilvægt en afrakstur verksins. Forsenda þess að virkja og viðhalda sköpunarkrafti nemenda er að skólinn skapi skilyrði þar sem hvatt er til frumkvæðis, sjálfstæðis og skapandi hugsunar á sem flestum sviðum. Nýsköpun og hagnýting þekkingar felur í sér áherslu á að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Markmið jafnréttismenntunar er að skapa öllum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi, jafnframt því að allir séu virkir þátttakendur í að skapa samfélag jafnræðis, jafnréttis og réttlætis. Menntun til jafnréttis fjallar um hvernig aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks. Við undirbúning framtíðarstarfsvettvangs er mikilvægt að opna augun fyrir kynskiptum vinnumarkaði og stuðla að því að námsval kynjanna verði minna kynbundið en hingað til. Það varðar miklu að ekki halli á kynin í þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við heldur grundvallist þau á jafnræði og jafnrétti.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðismenntun. Virkur borgari býr yfir vitund um eigin ábyrgð, lýðræði, gagnrýna hugsun, umburðarlyndi, jafnrétti, mannréttindi og ber virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Sjálfbærni snýst um umhverfi, ábyrgð, virðingu og lýðræðisleg vinnubrögð og réttlæti í nútíð og framtíð. Sjálfbærnimenntun miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Í sjálfbærnimenntun er lögð áhersla á skilning á þeim takmörkunum sem vistkerfi jarðar setur manninum, jöfnuð innan og milli kynslóða, skynsamlega nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Forsenda fyrir sjálfbæru samfélagi eru virkir borgarar sem eru meðvitaðir um gildi, viðhorf og tilfinningar sínar gagnvart þessum þáttum.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Læsi höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt og samfélag á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það. Læsi, tjáning og samskipti á íslensku auðveldar virk samskipti í félagslegu, menningarlegu og tæknilegu samhengi á Íslandi. Lestur er öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti er forsenda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Íslensk tunga og menning tengir saman fortíð þjóðarinnar og nútíð.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Læsi á menningu annarra þjóða, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum leggur grunn að skilningi, víðsýni og virðingu. Tungumálakunnátta er lykillinn að upplýsingum og gefur aðgengi að faglegu efni á erlendum tungumálum. Hún er ein af forsendum þess að geta átt farsæl samskipti og samvinnu við einstaklinga af öðru þjóðerni.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi:
Gott talnalæsi er mikilvægt hverjum manni til að takast á við daglegt líf og störf. Læsi á tölur felur í sér hæfni til að lesa úr, tjá sig um og nýta sér til gagns tölulegar upplýsingar. Læsi á upplýsingar tekur m.a. til upplýsingatækni þar sem mikilvægt er að allir geti aflað gagna, flokkað, unnið úr, notað og miðlað upplýsingum á gagnrýninn og skapandi hátt. Læsi á fjölmiðla gerir nemendum kleift að greina upplýsingar ólíkra miðla svo þeir geti sjálfir lagt gagnrýnið mat á þær.
Lykilhæfni felur m.a. í sér að nemandi: