Almennur hluti
Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.
Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.
Velferð nemenda tengist líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði.
Innan veggja hvers skóla á að vera í boði heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið og þannig stuðlað að heilbrigði nemenda skólans. Skólameistari framhaldsskóla skal hafa samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti og skal tilhögun lýst í skólanámskrá.
Enn fremur skulu framhaldsskólar hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda. Leggja þarf áherslu á áfengis- og fíkniefnaforvarnir, kynheilbrigði og geðrækt. Ekki er síður mikilvægt að skólinn styðji við félagslegt heilbrigði nemenda með því að hvetja til virkrar þátttöku í félagslífi.
Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þessir einstaklingar eiga jafnframt rétt á því að stunda nám til 18 ára aldurs, samanber þó ákvæði 33. gr. framhaldsskólalaga um skólareglur og meðferð mála.
Brot á skólareglum kann að leiða til þeirra viðurlaga að nemendum verði vísað úr skóla eða tilteknu fagi um nokkurt skeið. Við slíka ákvörðun skólameistara skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Þess skal gætt að forsjárforeldrum/forráðamönnum ólögráða nemenda, ásamt nemendum sjálfum, sé veittur andmælaréttur áður en ákvörðun er tekin um rétt eða skyldu nemenda.
Við innritun hefur framhaldsskólinn sérstökum skyldum að gegna hvað varðar nemendur með fötlun, nemendur sem koma beint úr grunnskóla, nemendur sem flytjast milli anna eða skólaára og aðra þá sem ekki eru orðnir lögráða (18 ára) við innritun.
Í skólasamningi framhaldsskóla við mennta- og menningarmálaráðuneyti skal kveðið sérstaklega á um skyldur viðkomandi framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur og kröfur sem skóli leggur til grundvallar við innritun nemenda í skólann eða á einstakar námsbrautir hans. Ráðuneytið ákveður fyrirkomulag innritunar og gefur út leiðbeiningar um frágang umsókna. Að öðru leyti skal horft til gildandi reglugerðar um innritun nemenda.
Til að stuðla að samræmi í námsmati við lok grunnskóla birtir ráðuneytið reglur um viðmið við lok grunnskóla í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.
Nemendum í opinberum framhaldsskólum stendur til boða, auk kennslu án endurgjalds, öll þjónusta sem skólinn skipuleggur fyrir nemendur. Gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla eru skýrðar í sérstakri reglugerð og er fjallað um þær hér á eftir.
Sem dæmi um lögbundna þjónustu er réttur nemenda til að njóta náms- og starfsráðgjafar og aðgangs að safni sem er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við starfsemi skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum.
Nemendur, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með heilsutengdar sérþarfir og nemendur með fötlun, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
Mikilvægt er að veita nemendum með sérþarfir kennslu og þann stuðning sem þeir þurfa á að halda og tök eru á að veita, samanber gildandi reglugerð um nemendur með sérþarfir. Það er ýmist gert með því að bjóða fram nám á námsbrautum fyrir fatlaða eða veita þeim sérstakan stuðning á öðrum námsbrautum framhaldsskóla.
Framhaldsskólar geta leitað til grunnskóla um upplýsingar um einstaka nemendur og er grunnskólum skylt að veita þær með upplýstu samþykki lögráða nemanda eða forsjárforeldra/forráðamanna, sé nemandi yngri en 18 ára. Þá er skólum heimilt að semja við sveitarfélög eða aðra aðila um sérfræðiþjónustu vegna einstakra nemenda til að tryggja sem best samfellu í námi þeirra (sjá viðauka 1).
Tilfærsluáætlun skal fylgja nemendum með fötlun þegar þeir koma úr grunnskóla samanber reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla (sjá viðauka 1).
Nemendum í opinberum framhaldsskólum stendur til boða, án endurgjalds, kennsla og önnur þjónusta sem skólinn skipuleggur fyrir nemendur. Eftirtalin gjaldtaka er þó heimil samkvæmt ákvæðum sérstakrar reglugerðar um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.
Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds en mennta- og menningarmálaráðuneyti ákveður í reglugerð hámarksupphæð þess. Ef nemendur eru innritaðir utan þess tíma sem auglýstur er til innritunar er heimilt að hækka gjaldið um 25% fyrir þá önn.
Framhaldsskólum er heimilt að innheimta af nemendum, sem njóta verklegrar kennslu, efnisgjald fyrir efni sem skólinn lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Efnisgjald skal taka mið af raunverulegum efniskostnaði. Ráðuneyti auglýsir á hverjum tíma hámark efnisgjalds. Framhaldsskólar geta boðið upp á nám utan reglubundins daglegs starfstíma og í fjarkennslu. Í slíkum tilvikum er þeim heimilt að taka gjald af nemendum fyrir hluta launakostnaðar vegna kennslunnar. Ráðuneytið setur á hverjum tíma fram nánari reglur um gjaldtöku. Fari nám fram að sumri til er framhaldsskólum heimilt að taka gjald af nemendum til að mæta sérgreindum kostnaði sem fellur til vegna kennslunnar.
Þá er skólum heimilt að innheimta gjald af nemendum fyrir valkvæða starfsemi, svo sem leikhús-, vettvangs- eða safnferðir í tengslum við námið.
Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla. Gjaldið tekur til þátta eins og útgáfu skírteina (annarra en prófskírteina), aðgangs að þráðlausu neti og tölvuforritum, útgáfu netfangs, gagnapláss, skápaleigu, prentunar, fjölföldunar og bílastæðis. Skólameistari auglýsir gjaldskrá að höfðu samráði við skólanefnd. Gjaldskrá skal að hámarki miðast við kostnað og skal birta á vef skóla fyrir upphaf innritunartímabils.
Mat á námi nemenda, sem farið hefur fram innan íslenska skólakerfisins nýlega og krefst ekki umfangsmikillar matsvinnu, skal vera nemendum að kostnaðarlausu. Framhaldsskólum er heimilt að taka hóflegt gjald fyrir umfangsmikla vinnu við raunfærnimat og mat á námi nemenda. Gjaldskrá fyrir þannig mat skal að hámarki miðast við kostnað og birt í skólanámskrá.
Skólareglur skulu birtar í skólanámskrá og vera öllum aðgengilegar. Þær skulu geyma ákvæði um eftirfarandi þætti:
Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda, svo sem brottvísun úr skóla í f leiri en einn skóladag eða að nemandum sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
Framhaldsskólar skulu veita umsögn um skólasókn nemenda í námsferli og prófskírteini.
Í skólasóknarreglum skal tilgreina:
Við setningu reglna um skólasókn skal taka sérstakt tillit til langveikra nemenda og nemenda sem eru tímabundið fjarverandi frá skóla vegna veikinda eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.
Í samræmi við stjórnsýslulög og á grundvelli reglna um skólasókn er hægt að vísa nemendum úr einstökum áföngum eða úr skóla vegna lélegrar skólasóknar og skulu þeir þá áður hafa fengið skriflega viðvörun frá viðkomandi kennara, umsjónarkennara eða stjórnanda. Skal virða andmælarétt og gæta þess að forsjárforeldrum eða forráðamönnum ólögráða nemenda sé gert viðvart skriflega. Endanleg brottvikning er á ábyrgð skólameistara.
Hver skóli setur sér reglur um boðleiðir og verklag um ágreiningsmál sem upp kunna að koma. Við vinnslu þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.
Í verklagsreglum skal koma fram:
Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skóla. Uni nemandi eða forráðamaður hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og menningamálaráðuneytisins.
Framhaldsskólar skulu skrá feril máls þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga (sjá Viðauka 1). Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu.
Framhaldsskólum ber að setja fram skýrar verklagsreglur um framvindu nemenda í námi. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forsjárforeldrum og forráðamönnum. Reglur um framvindu náms geta verið mismunandi eftir hæfniviðmiðum náms, á hvaða hæfniþrepi brautin skilar nemendum og hvort nemendur eru orðnir lögráða (18 ára). Reglur um framvindu náms skulu birtar í námsbrautarlýsingu og tekur ráðuneytið afstöðu til þeirra þegar brautin er staðfest.
Gögn í vörslu skóla sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar um nemendur skal farið með í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, laga um Þjóðskjalasafn Íslands og ákvæði upplýsingalaga eftir því sem við á. Starfsfólk í framhaldsskólum er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um lögráða nemendur án samþykkis þeirra eða forsjárforeldra/forráðamanna ef um er að ræða nemendur yngri en 18 ára. Allir framhaldsskólar skulu varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita þeim aðgang að þeim upplýsingum. Framhaldsskólar skulu opna forsjárforeldrum og forráðamönnum, barna yngri en 18 ára aðgang að upplýsingakerfi sínu þar sem meðal annars eru birtar einkunnir og skólasókn barna þeirra. Um rétt forsjárlauss foreldris til aðgangs að upplýsingum um barn sitt upp að 18 ára aldri fer samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Þegar nemendur hafa náð lögræðisaldri er einungis heimilt að veita þeim sjálfum, eða þeim sem nemendur veita skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða þá persónulega.
Framhaldsskólum er þó heimilt að veita öðrum skólum upplýsingar um einstaka nemendur vegna flutnings þeirra milli skóla eða vegna þess að þeir stunda nám við fleiri en einn skóla eða fræðslustofnun. Einnig er heimilt að veita fræðsluyfirvöldum slíkar upplýsingar í skýrt afmörkuðum tilgangi. Sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða skulu þær þó ekki afhentar nema með upplýstu samþykki forsjárforeldra eða lögráða nemenda.
Persónuupplýsingar skulu afhentar á öruggan hátt þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt.
Reykingar og önnur tóbaksnotkun er stranglega bönnuð í húsnæði og á lóð framhaldsskóla. Einnig er öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í húsakynnum skóla og á samkomum á þeirra vegum. Jafnan skal hafa samband við forsjárforeldra/forráðamenn ólögráða nemenda komi eitthvað upp á í þessum efnum.