Almennur hluti
Mikilvægt er að nám nemenda, sem færast á milli skóla eða námsbrauta, nýtist þeim eins og kostur er. Samkvæmt lögum geta tveir eða fleiri framhaldsskólar staðið sameiginlega að gerð námsbrautalýsinga. Þannig samstarf eða samstarf um sameiginlegt framboð námsbrauta er liður í að auðvelda nemendum að færast á milli skóla og gefur litlum skólum í samvinnu við stóra skóla kost á að bjóða upp á fjölbreyttara nám. Skólar geta bæði boðið upp á sömu námsbrautir eða sameinast um framkvæmd á annan hátt. Þannig getur einn skóli boðið upp á fyrri hluta námsbrautar og nemendur tekið seinni hlutann í samstarfsskóla. Skólar geta einnig sameinast um kennslu áfanga.
Samvinna skóla getur einnig tekið til stoðþjónustu, svo sem tölvukerfis eða vefþjónustu.
Til að tryggja samfellu og stuðla að velferð nemenda er mikilvægt að milli grunnskóla og framhaldsskóla séu virk tengsl og miðlun upplýsinga eigi sér stað. Grunnskólanemendur geta hafið nám í framhaldsskóla samhliða grunnskólanámi ef fyrir liggur samkomulag milli viðkomandi grunnskóla og framhaldsskóla um framkvæmdina. Jafnframt þarf að gera samning milli ríkis og sveitarfélags þar sem m.a. kemur fram að nemendur og skipulag náms sé á ábyrgð grunnskólans.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á sveigjanleg skil milli grunn- og framhaldsskóla. Ef nemendur í grunnskóla uppfylla hæfnikröfur í einstökum greinum framhaldsskólans eiga þeir rétt á því að fá nám sem þeir hafa lokið metið til eininga, enda fellur námið að námskrá og námsbrautalýsingum viðkomandi framhaldsskóla og námskröfur eru sambærilegar. Forsenda fyrir námsfyrirkomulagi af þessu tagi er formlegt samstarf á milli grunnskóla og framhaldsskóla.
Fyrsta hæfniþrep framhaldsskóla skarast við unglingastig grunnskóla á þann hátt að lýsing á fyrsta hæfniþrepi framhaldsskóla er jafnframt lýsing á þeirri hæfni sem stefnt er að við lok grunnskóla. Ennfremur hefur í aðalnámskrá grunnskóla verið skilgreindur, við lok grunnskóla, samræmdur námsmatskvarði tengdur skilgreindum matsviðmiðum fyrir einstakar námsgreinar og námssvið.
Viðmið um mat á lykilhæfni í grunnskóla eru í takt við lýsingar á lykilhæfni í framhaldsskóla og lýsingu á einkennum fyrsta hæfniþrepsins. Þessi viðmið, ásamt lýsingum á mati við lok grunnskóla innan mismunandi námssviða, nýtast framhaldsskólum við skipulag námsbrauta sem ætlað er að brúa bil milli grunn- og framhaldsskóla.
Samræmdum matskvarða við lok grunnskóla er ætlað að veita sams konar lýsingu á hæfni nemenda við lok grunnskóla, óháð skóla. Grunnskólar eru ábyrgir fyrir því að um réttmætt og áreiðanlegt mat sé að ræða við lok grunnskóla og að matið veiti nemendum, foreldrum og framhaldsskólum sem besta leiðsögn varðandi næstu skref nemenda.
Námsáfangar í framhaldsskóla eru skilgreindir á hæfniþrep og hefja nemendur úr grunnskólum nám ýmist í áföngum á fyrsta eða öðru hæfniþrepi eftir forkröfum áfanga og hæfni nemenda. Framhaldsskólar nýta einkunnir nemenda við lok grunnskóla meðal annars til leiðsagnar um í hvaða námsáföngum á fyrsta eða öðru hæfniþrepi þeim hentar að hefja nám.
Við lok grunnskóla er notaður námsmatskvarði A-D og er hann skilgreindur þannig að nemandi sem fær B, B+ eða A hefur náð hæfniviðmiðum í 10. bekk. Þekking, leikni og hæfni nemenda við lok grunnskóla er samhljóða lýsingu á fyrsta hæfniþrepi framhaldsskóla. Má því gera ráð fyrir að nemendur sem ná ofangreindum viðmiðum búi yfir hæfni til þess að hefja nám í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði í framhaldsskóla á öðru hæfniþrepi. Mat á því hvaða þrep hentar best hverjum og einum er í höndum viðkomandi framhaldsskóla innan þeirra marka sem reglugerðir og samningar kveða á um.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á sveigjanleg skil milli skólastiga og á það einnig við um skil milli framhaldsskóla og háskóla. Menntastofnunum er falin aukin ábyrgð á að þróa námsframboð á mörkum skólastiga til að auka sveigjanleika og möguleika nemenda við flutning þeirra milli skólastiga. Þannig geta fjölbreyttir námsáfangar á fjórða hæfniþrepi skarast við nám á háskólastigi. Samstarf milli aðliggjandi skólastiga er forsenda þess að möguleiki gefist á mati á námi milli skólastiga.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla er skólunum heimilt að bjóða upp á nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á þriðja hæfniþrepi. Námið er skilgreint sem viðbótarnám við framhaldsskóla á fjórða hæfniþrepi og gefið upp í framhaldsskólaeiningum.
Nám á fjórða hæfniþrepi getur verið metið til eininga (ECTS) á háskólastigi, sbr. lög nr. 63/2006. Það er þó á forsendum hverrar háskólastofnunar fyrir sig, innlendrar sem erlendrar. Framhaldsskólar skulu alltaf auglýsa nám á fjórða þrepi í framhaldsskólaeiningum en ef fyrir liggur samstarfssamningur um mat á náminu við háskólastofnun má geta þess í upplýsingum um námsframboð.
Samstarf framhaldsskóla og atvinnulífs er forsenda þess að skólakerfið geti brugðist við þörfum atvinnulífsins og jafnframt boðið upp á fjölbreytt nám sem nýtist nemendum í störfum að námi loknu. Samstarfið getur farið fram með mismunandi hætti og haft ólíkar áherslur.
Í sumum framhaldsskólum hafa verið mynduð fagráð með fulltrúum úr atvinnulífinu sem m.a. eru ráðgefandi við ákvarðanir um áherslur í námi á einstökum námsbrautum. Einnig er víða samstarf milli framhaldsskóla og atvinnulífs sem tekur mið af sérstöðu nærsamfélagsins. Það getur beinst að þörfum fyrirtækja fyrir menntað starfsfólk og/eða þörfum nemenda skólans fyrir vinnustaðanám eða starfsþjálfun. Þá eru dæmi um að skólar hafi samstarf við vinnustaði sem sjá þeim fyrir aðstöðu til verklegrar kennslu í einstökum námsáföngum.
Eitt af hlutverkum starfsgreinaráða, sem skipuð eru á grundvelli laga um framhaldsskóla, er að stuðla að gagnkvæmum skilningi og bættum tengslum milli atvinnulífs og skóla. Þau skilgreina m.a. þarfir fyrir þekkingu, leikni og hæfni sem námsbrautalýsingar fyrir viðkomandi starfsgreinar byggjast á og veita umsagnir um námsbrautalýsingar starfsnáms sem einstakir skólar leita eftir staðfestingu á.
Lög um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 eiga að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki. Fyrst og fremst er um að ræða fólk sem horfið hefur frá námi út á vinnumarkaðinn án þess að hafa lokið skilgreindu námi á framhaldsskólastigi.
Framhaldsfræðsla felur í sér náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat og nám samkvæmt námskrám sem mennta- og menningarmálaráðuneyti staðfestir. Meðal markmiða framhaldsfræðslunnar er að gefa einstaklingum færi á að efla starfshæfni sína og veita þeim aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Nám innan framhaldsfræðslunnar má meta til eininga í framhaldsskóla og er það í höndum stjórnenda hvers skóla að ákveða slíkt. Brýnt er að sá hluti þátttakenda í framhaldsfræðslu, sem óskar eftir að snúa til baka í formlegt nám í framhaldsskóla, fái nám sitt metið eins og kostur er. Mikilvægt er að framhaldsskólar og framhaldsfræðsluaðilar eigi samstarf um mat á námi til eininga og námsframboð sem tekur mið af getu og þörfum ólíkra nemenda með það fyrir augum að tryggja fjölbreytt námsframboð og greiðar leiðir áfram í námi.
Mikilvirk leið við að virkja ákvæði um grunnþætti í skólastarfi eru ýmis samstarfsverkefni við innlenda sem erlenda aðila. Þetta geta til dæmis verið samstarfsverkefni við aðra skóla, nærsamfélagið og félagasamtök.
Ýmsir möguleikar eru á samstarfsverkefnum milli skóla innanlands sem utan auk nemendaskipta. Enn fremur gefst framhaldsskólum oft kostur á þátttöku í ráðstefnum, rannsóknavinnu og alþjóðlegum samkeppnum skóla.
Alla þessa þætti má nýta við að virkja félagsleg og menningarleg tengsl nemenda við samfélög nær og fjær, auk þess að efla vitund þeirra um sjálfbærni, læsi og sköpun.