Almennur hluti
Skólameistari veitir framhaldsskóla forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
Sérhver framhaldsskóli skal gefa út skólanámskrá og skiptist hún í almennan hluta annars vegar og námsbrauta- og áfangalýsingar hins vegar. Auk þess að taka mið af lögum og reglugerðum um framhaldsskóla skulu önnur lög, reglugerðir og reglur hafðar til hliðsjónar við gerð skólanámskrár eftir því sem efni standa til og nauðsyn krefur.
Skólanámskráin er unnin af starfsfólki skólans undir stjórn skólameistara og skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar. Hún skal birt á aðgengilegan hátt á vef skólans og vera uppfærð reglulega.
Í skólanámskrá er fjallað um stefnu skólans og framtíðarsýn auk sérstöðu hans eða sérstakar áherslur í starfi, t.d. með hliðsjón af staðháttum eða þjónustu við tiltekna markhópa. Skólinn setur sér markmið sem byggjast á hlutverki hans og stefnu samkvæmt skólanámskrá, starfsáætlunum og umbótaáætlunum í samræmi við innra mat á starfsemi hans. Jafnframt eiga markmiðin að taka tillit til áherslna og markmiða ráðuneytis. Gert er ráð fyrir að markmiðin snerti alla mikilvægustu þætti starfseminnar, þar á meðal nemendur, námsframboð, nám, gæði kennslu, stoðþjónustu, stjórnun, starfsmannahald og fjármál. Í skólanámskrá er birt lýsing á því kerfisbundna innra mati sem notað er til að leggja mat á gæði skólastarfsins ásamt árlegum áherslum og áætlunum um innra mat.
Í skólanámskrá skal birta stefnu skólans í einstökum málefnum, svo sem í forvörnum og heilsusamlegum lífsháttum. Forvarnir skulu vinna gegn einelti, ofbeldi, reykingum, annarri tóbaksnotkun og notkun vímuefna og stuðla að vörnum gegn sjálfsvígum og vanlíðan. Einnig skal birta stefnu skólans í umhverfismálum og jafnréttismálum, móttökuáætlun, áætlun gegn einelti, rýmingaráætlun, áfallaáætlun og viðbrögð við vá, svo sem faraldri, óveðri, eldgosi og jarðskjálftum.
Í skólanámskrá er fjallað um umgjörð skólastarfsins og skipulag kennslunnar, t.d. hvað varðar staðnám, dreifnám og fjarnám. Þar er kveðið á um fyrirkomulag innritunar nemenda samkvæmt skólasamningi, þar með talin þau atriði sem skóli tekur sérstakt tillit til við afgreiðslu nýrra umsókna um skólavist. Einnig er fjallað um reglur um umgengni og samskipti í skóla, á samkomum á vegum skóla og á heimavist.
Í skólanámskrá eru einnig birtar verklagsreglur sem gilda um meðferð og úrlausn mála, til dæmis hvað varðar námsmat, fjarvistir, veikindi og sérúrræði, skólasókn og námsframvindu. Þar eru einnig upplýsingar um viðurlög við brotum á skólareglum og reglur um meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga. Gerð er grein fyrir siðareglum inn á við og út á við, samskiptum við forsjárforeldra/forráðamenn nemenda undir lögaldri, samskiptum við aðra skóla hérlendis og erlendis og samstarfi við aðila á vinnumarkaði og nærsamfélag.
Í skólanámskrá er gerð grein fyrir aðbúnaði, aðstöðu og almennri þjónustu við nemendur.
Í skólanámskrá er gerð grein fyrir áherslum skólans og leiðum til að stuðla að góðum skólabrag, t.d. með tilliti til grunnþáttanna sex: heilbrigðis og velferðar, lýðræðis og mannréttinda, jafnréttis, sköpunar, sjálfbærni og læsis í víðum skilningi. Einnig skulu í skólanámskrá vera upplýsingar um félagsstarf nemenda á vegum skólans.
Hver skóli birtir þær námsbrautalýsingar og áfangalýsingar sem í boði eru hverju sinni.
Einn hluti skólanámskrárinnar er árleg starfsáætlun þar sem gerð er grein fyrir starfstíma skólans, mikilvægum dagsetningum og öðrum grunnupplýsingum um starfsemi skólans. Þar er gerð grein fyrir starfsfólki skólans, skólaráði, skólanefnd, foreldraráði og nemendaráði.
Ráðherra skipar skólanefnd til fjögurra ára í senn en í henni sitja fimm manns. Tveir eru tilnefndir af sveitarstjórn og þrír eru skipaðir án tilnefningar. Kennarar, foreldrar og nemendafélag tilnefna hvert sinn áheyrnarfulltrúann. Skólanefnd markar áherslur í skóla-starfinu og er skólameistara til ráðgjafar í margvíslegum málum. Skólameistari situr fundi skólanefndar. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar almenningi á heimasíðu skóla.
Í framhaldsskólum skal halda kennarafund að minnsta kosti tvisvar á skólaári. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Allir kennarar sem starfa við skóla eiga rétt til setu á kennarafundi. Skólameistari undirbýr mál er fyrir kennarafund koma en öllum sem þar eiga seturétt er heimilt að bera þar fram mál. Kennarafundur kýs fulltrúa í skólaráð og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.
Í framhaldsskólum skal einnig halda skólafund að minnsta kosti einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.
Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag sem vinnur meðal annars að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér lög um starfssvið og starfshætti og starfar á ábyrgð skóla sem sér því fyrir starfsaðstöðu. Skólum er heimilt að styrkja félögin fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu reglum og bókhald skólanna. Nemendur kjósa fulltrúa í skólaráð og tilnefna fulltrúa á skólafund og áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.
Mikilvægt er að framhaldsskólar vinni að skipulegri samvinnu heimilis og skóla.
Framhaldsskólar sinna bæði lögráða og ólögráða einstaklingum og breytist því samstarf heimilis og skóla við 18 ára aldur. Samstarf milli framhaldsskóla og foreldra ólögráða nemenda er mikilvægur liður í að draga úr skilum milli skólastiga, veita nemendum nám og ráðgjöf við hæfi og efla forvarnir. Ólögráða nemendur eru undir forsjá foreldra eða annarra sem hefur verið falin forsjá þeirra samkvæmt lögum og er skólum skylt að upplýsa þá um námsframvindu barna þeirra svo og mál sem upp kunna að koma varðandi skólagöngu þeirra. Leyfi lögráða nemenda þarf til að afhenda foreldrum gögn er varða nám þeirra.
Foreldraráð skal starfa í hverjum skóla og eiga forsjárforeldrar/forráðamenn allra nemenda skólans rétt á aðild að því. Stjórn foreldraráðs tilnefnir áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Hlutverk ráðsins er samkvæmt lögum að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann.