Almennur hluti
Eins og áður hefur komið fram gegnir framhaldsskólinn fjölbreyttu hlutverki og þjónar nemendum sem stefna að mismunandi marki. Áhersla er lögð á hæfni nemenda á vegferð þeirra og mikilvægt að námsmatið styðji við þau markmið sem stefnt er að.
Oft er tilgangur námsmats að kanna að hve miklu leyti nemendur hafa tileinkað sér markmið aðalnámskrár í viðkomandi grein en einnig þarf að horfa til lykilhæfni nemenda. Æskilegt er að í námsmati felist jafnframt leiðsagnarmat, það er leiðbeining til nemenda um hvernig þeir geti með árangursríkustum hætti hagað námi sínu í framhaldinu.
Námsmat gegnir mikilvægu hlutverki við að afla vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstökum nemendum eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Mikilvægt er að skólar setji sér stefnu varðandi fjölbreytt námsmat og leiðsögn nemenda. Námsmat skal vera réttmætt og áreiðanlegt og umfang þess í samræmi við nám og kennslu í viðkomandi áfanga.
Námsmat skal byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Þess skal gætt að námsmatið taki til allra þátta námsins þannig að þekking nemenda, leikni og hæfni auk framfara sé metin. Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar, falið í sér sjálfsmat, jafningjamat, símat og lokamat.
Framhaldsskólar skulu setja skýrar verklagsreglur um námsmat og birta þær í skólanámskrá.
Þar eiga að koma fram:
Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara undir umsjón skólameistara. Framhaldsskólaprófum skal fylgja umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Þeir nemendur sem hyggjast ljúka stúdentsprófi skulu hafa lokið öllum námsáföngum samkvæmt námskrá með fullnægjandi árangri samkvæmt mati viðkomandi skóla. Í kjarnagreinum framhaldsskóla skal námsmat í lokaáföngum til stúdentsprófs taka mið af viðmiðunarprófum sem ráðherra lætur í té eða viðurkennir. Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi en um uppbyggingu og framkvæmd þeirra er fjallað í sérstakri reglugerð.
Niðurstöður námsmats má birta sem einkunnir og/eða umsagnir. Lokavitnisburður, sem birtist á útgefnum námsferlum og prófskírteinum nemenda, skal vera í heilum tölum á bilinu 1-10 eða í kerfi sem hægt er að tengja við það með skýrum hætti. Sú krafa er sett fram til að auðvelda mat á námi nemenda milli skóla. Að jafnaði skal miða við að 5 sé lágmarkseinkunn til að standast námsáfanga. Frávik frá því skulu skýrð í námsbrautarlýsingu og birtast í skólanámskrá.
Meðferð og birtingu einkunna ber að haga í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Því er skólum óheimilt að birta einkunnir einstakra nemenda undir nafni, kennitölu eða öðru skráningarauðkenni sem hægt er að persónugreina nema fyrir liggi skrifleg heimild viðkomandi nemanda. Ef nemandi er ólögráða má skóli afhenda forráðamanni vitnisburð nemanda en annars þarf skriflega heimild viðkomandi nemanda.
Framhaldsskólum ber að setja fram skýrar verklagsreglur um einkunnir og birtingu þeirra. Þar á að koma fram:
Skóla er skylt að varðveita allar prófúrlausnir lokaprófa í eitt ár hvort sem þær eru skriflegar eða rafrænar, í samræmi við ákvæði laga um Þjóðskjalasafn. Innan þess tíma á próftaki rétt á að fá að sjá úrlausn og fá af henni afrit. Að þeim tíma liðnum ber skólameistari ábyrgð á að eyða öllum prófúrlausnum.
Símatsgögn falla undir þetta ákvæði eins og kostur er og framkvæmanlegt getur talist. Allar umsagnir kennara og einkunnir sem gefnar eru fyrir einstök verkefni, smærri próf, heimapróf, ritgerðir og skýrslur þarf að geyma í ár. Smíðisgripi og teikningar sem talist geta til lokaverkefna ber ekki að geyma en miða við að nemendur fari ekki með gripina úr skólanum fyrr en að lokinni prófsýningu sem jafngildi því að þeir geri ekki athugasemd við fyrirliggjandi einkunn.
Samkvæmt upplýsingalögum geta þeir sem þess óska fengið afhent eintök af lokaprófsverkefnum skóla eftir að próf í viðkomandi greinum hefur verið þreytt.
Skóli gefur út prófskírteini til staðfestingar á námslokum nemanda. Á prófskírteini skal koma fram merki skóla og heiti, upplýsingar um nám nemanda svo sem heiti námsloka og námsbrautar, uppröðun náms á hæfniþrep, einstakar námsgreinar og áfangaheiti, einkunnir áfanga og ef við á hvaða réttindi námið veitir. Auk þess skal skólasóknareinkunn eða vitnisburður um ástundun koma fram. Prófskírteinið skal vera dagsett, stimplað og undirritað. Einstakir framhaldsskólar geta bætt við upplýsingum telji þeir þörf á því.
Handhafi prófskírteinis getur fengið þýðingu þess á ensku ef hann óskar og sér sá framhaldsskóli sem útskrifar nemandann um gerð slíkrar þýðingar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið birtir á vef viðauka með prófskírteinum starfsnámsbrauta á íslensku og ensku. Þar er lýst þeirri hæfni sem handhafi prófskírteinis býr yfir að námi loknu og próflok tengd við hæfniþrep í íslenskum og evrópskum viðmiðaramma.
Skóla er skylt að varðveita afrit prófskírteina í tryggri hirslu í samræmi við ákvæði laga um Þjóðskjalasafn.
Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans geta þeir snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Fjallað er um meðferð ágreiningsmála vegna árangurs í sveinsprófum í gildandi reglugerð þar um.